Framsóknarflokkurinn vann mikinn sigur í borgarstjórnarkosningunum í nótt en þeir náðu fjórum fulltrúum inn og þar með féll borgarstjórnarmeirihlutinn.

Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn sé áfram stærsti flokkurinn voru úrslitin í nótt þau verstu í sögu flokksins en flokkurinn tapaði tveimur fulltrúum og það sama á við um Samfylkinguna.

Vegna nýrra kosningalaga tók talning atkvæða mun lengri tíma en búist hafði verið við og var biðin eftir fyrstu tölum í Reykjavík ansi löng. Fyrstu tölur voru lesnar upp eftir klukkan hálf tvö í nótt og var strax ljóst að Framsóknarflokkurinn undir forystu Einars Þorsteinssonar hefði unnið stórsigur í kosningunum. Lítið var um breytingar eftir fyrstu tölur.

Fjögurra flokka meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri hreyfingarinnar er fallin. Útlit er fyrir flóknar viðræður um myndun nýs meirihluta og þykir líklegt að Framsóknarflokkurinn muni vera í lykilstöðu í viðræðunum.

Niðurstöðurnar í heild sinni.
Fréttablaðið

Framsóknarflokkurinn fékk 18,7 prósent atkvæði og náði sem fyrr segir fjórum fulltrúum inn en líkt og eftirminnilegt er náðu þeir engum manni inn í íðustu borgarstjórnarkosningum.

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn töpuðu báðir tveimur borgarfulltrúum. Samfylkingin hlaut 20,3 prósent atkvæða og fer þar með úr sjö fulltrúum niður í fimm.

Úrslit Sjálfstæðisflokksins eru þau verstu í sögu flokksins í Reykjavík en hann fékk 24,5 prósent atkvæða og fer úr átta borgarfulltrúum niður í sex.

Bæði Sósíalistar og Píratar bættu við sig fulltrúa í borgarstjórn, Trausti Breiðfjörð Magnússon kemur inn fyrir Sósíalista og Magnús Davíð Norðdahl fyrir Pírata.

Viðreisn missti annan af tveimur fulltrúum sínum en það er hann Pawel Bartoszek sem dettur út úr borgarstjórn.

Píratar fengu fjórðu mestu atkvæðin, 11,6 prósent, en þeir eru nú með þrjá fulltrúa inni. Sósíalistar koma þar á eftir með 7,7 prósent og tvo fulltrúa.

Flokkur fólksins og Vinstri hreyfingin grænt framboð héldu bæði sínum fulltrúa inni. Flokkur fólksins fékk 4,5 prósent atkvæða og Vinstri hreyfingin grænt framboð fékk 4,0 prósent.

Hér má sjá borgarfulltrúana 23 í Reykjavík eftir niðurstöður kosninganna.
Fréttablaðið