Stór hluti farþeganna sem voru í rútunni sem valt við Hof í Ör­æfum á fimmtu­dag var ekki í bíl­beltum þrátt fyrir fyrir­mæli bíl­stjóra rútunnar um að gera slíkt.

Þetta segir Sveinn Kristján Rúnars­son, yfir­lög­reglu­þjónn á Suður­landi, í sam­tali við Frétta­blaðið. Rann­sókn málsins miðar á­fram og er búið að ræða við hluta farþeganna 32, sem allir eru frá Kína, auk bíl­stjórans.

„Þetta er eitt­hvað sem við höfum svo­lítið verið að glíma við,“ segir Sveinn Kristján. „Þeir sem eru að ferðast um landið, hvort sem þeir eru far­þegar í rútum eða á eigin vegum, eru ekki endi­lega að virða ís­lensk lög.“

Það stór­auki hættuna á bana­slysum en vanda­mál þetta hefur verið stór or­saka­valdur í bana­slysum er­lendra ferða­manna að sögn Sveins.

„Svo er þetta bara spurning um menningar­mun. Hver er menningin í hverju landi fyrir sig? Fyrir okkur er þetta eðlis­lægt en það er það ekki hjá öllum“ segir Sveinn.

RÚV greinir frá því að sjö liggi enn á spítala eftir rútu­slysið. Þar af séu þrír á gjör­gæslu Land­spítalans og einn á bráða­legu­deild. Þá séu þrír inni­liggjandi á Sjúkra­húsinu á Akur­eyri.