Meirihluti landsmanna mun líklega velja vistvænan kost í næstu bifreiðakaupum. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar sem Zenter rannsóknir framkvæmdu fyrir Fréttablaðið og frettabladid.is. Alls segja 24 prósent mjög líklegt að næsti keypti bíll verði vistvænn en 27,5 prósentum þykja slík kaup frekar líkleg. Rúmum 20 prósentum þykir hvorki líklegt né ólíklegt að vistvænn bíll verði fyrir valinu en fjórðungi þykja slík kaup ólíkleg, þar af lifa rúm þrjú prósent bíllausum lífsstíl. 4,4 prósent tóku ekki afstöðu.

Með vistvænum bíl er átt við rafmagnsbíl, tengiltvinnbíl (hybrid) eða bíl sem gengur fyrir metan eða vetni.

Konur eru heldur líklegri (58%) en karlar (49%) til að kjósa vistvænan bíl. Lítill munur er hins vegar á viðhorfum eftir aldurshópum og áhugi á að kaupa vistvænan bíl er yfir 50 prósentum í öllum aldurshópum nema einum; elsta hópnum þar sem 44 prósent lýsa slíkum áhuga.

Líklegra er að vistvænn kostur verði fyrir valinu með hækkandi tekjum. Meðal þeirra sem hafa yfir 600 þúsund í mánaðartekjur hafa 63 prósent hug á því að velja vistvænan bíl næst.

Kjósendur VG og Viðreisnar með vistvænustu viðhorfin

Kjósendur Viðreisnar og Vinstri grænna eru langlíklegastir til að velja vistvænan bíl, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Zenter rannsóknir framkvæmdu fyrir Fréttablaðið og frettabladid.is. Um 70 prósent beggja flokka segja líklegt að vistvænn bíll verði fyrir valinu næst.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Pírata hafa svipuð viðhorf þegar kemur að vistvænum kosti. Um 55 prósent kjósenda þessara flokka segja líklegt að vistvænn bíll verði fyrir valinu næst.

Tæpur helmingur kjósenda Framsóknarflokksins og kjósenda Sósíalistaflokksins hefur hug á því að kaupa vistvænan bíl en aðeins þriðjungur kjósenda Miðflokksins og Flokks fólksins.

Búseta hefur töluverð áhrif á viðhorf landsmanna til vistvæns kosts í bílakaupum. Rétt tæp 60 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins og Suðurlands eru líkleg til að velja vistvænan bíl næst. Tæpur helmingur Norðlendinga og íbúa Vesturlands hefur áhuga á vistvænum kosti en aðeins þriðjungur íbúa Austurlands og Reykjaness. Vestfirðingar hafa hins vegar langminnstan áhuga allra á vistvænum farkosti en aðeins 25 prósent þeirra hafa hug á slíkum kaupum.

Könnunin var send á könnunarhóp Zenter rannsókna dagana 5. til 9. september. Í könnunarhópnum voru 2.100 einstaklingar á Íslandi, 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 52 prósent.