Meirihluti Íslendinga vill setja strangari reglur um notkun flugelda, og fjórðungur þeirra vill banna almenna notkun með öllu. Þetta kemur fram í heildstæðri rannsókn vísindamanna við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands.

Rannsóknin snýr hvort tveggja að viðhorfi til flugeldanotkunar og mengunar af völdum flugelda á höfuðborgarsvæðinu. Í rannsókninni var svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 12 áramótum skoðuð í alþjóðlegu samhengi, ásamt áhrifaþáttum mengunar. Auk þess var viðhorf hagsmunaðila innan stjórnkerfisins, meðal sveitarfélaga, seljenda flugelda og ferðaþjónustu til flugelda kannað. Viðhorf þjóðarinnar var svo einnig kannað í skoðanakönnun sem unnin var í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Auk viðhorfskannana og rannsóknar voru skoðaðar leiðir til úrbóta.

Evrópumeistarar í svifryksmengun

Í rannsókninni kemur m.a. fram að dægurgildi ör-svifryks hefur ítrekað farið yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu á nýársdag síðustu 12 ár. Í fréttatilkynningu segir að sérstakt áhyggjuefni sé „gríðarhár styrkur svifryks á griðastöðum í þéttbýli, í miðjum íbúðarhverfum og útivistarsvæðum“.

Eins og fram kom í fréttum á dögunum, eftir að minnisblað frá lýðheilsusérfræðingi Kópavogsbæjar var lagt fyrir bæjarstjórn á mánudag, slógu Íslendingar Evrópumet í svifryksmengun um síðustu áramót, en þá mældist gildi svifryks, sem telst minna en 2,5 míkrómetrar í þvermál, 3000 µg/m3 í Dalsmára í Kópavogi. Í tilkynningunni segir að slíkt svifryk geti ferðast djúpt ofan í lungun, niður í lungnablöðrur og þaðan í blóðrásarkerfið og skaðað líffæri. „Í ofanálag inniheldur flugeldasvifryk hækkað magn þungmálma sem flokkast sem eiturefni. Einnig mældist hækkað gildi af Benzo(a)pyren í svifrykinu sl. áramót en það er krabbameinsvaldandi,“ segir í tilkynningu.

Að rannsókninni stóðu Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ, og Þröstur Þorsteinsson, prófessor í umhverfis- og auðlindarfræði við sama skóla. Nánar verður farið yfir niðurstöður rannsóknarinnar og mögulegar leiðir til úrbóta á opnum fundi með rannsakendum í Háskóla Íslands föstudaginn 21. september kl. 14-15 í stofu 132 í Öskju, Sturlugötu 7.