Sérstakur starfshópur skipaður af heilbrigðisráðherra skilaði í janúarlok árið 2018 inn greinargerð um ávinning fyrir lýðheilsu og vellíðan landsmanna af því að leiðrétta klukkuna til samræmis við gang sólar. Ári síðar ákvað forsætisráðherra að setja málið í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda.

Í heildina bárust 1.558 umsagnir, 1.549 frá einstaklingum, fimm frá félagasamtökum, tvær frá fyrirtækjum og tvær frá stofnunum.

Í boði voru þrír valkostir. Að klukkan yrði óbreytt, að klukkunni yrði seinkað um eina klukkustund og að halda klukkunni óbreyttri en auka sveigjanleika á opnunartíma fyrirtækja og stofnana.

Í gær birtust síðan niðurstöður samantektar um sjónarmið umsagnaraðila á vef Stjórnarráðsins. Helstu rök sem umsagnaraðilar settu fram fyrir seinkun klukkunnar eru að staðartími eigi að vera í takt við líkamsklukku og að mikilvægt sé að fjölga birtustundum.

Þeir sem voru á móti seinkun klukkunnar bentu margir á að birtu­stundum á bilinu 07.00 til 23.00 fækki um 13 prósent yfir árið. Það muni leiða til minni útiveru fólks og aukinnar slysahættu. Þá voru efasemdir um að stilling klukku hefði mikið að segja gagnvart raflýsingu, skjánotkun og nútíma lifnaðarháttum.

Samandregið var meirihluti þeirra sem sendu inn umsagnir hlynntur breytingu klukkunnar eða 56 prósent. Þeir sem vildu halda klukkunni óbreyttri voru 37 prósent og um fjögur prósent þátttakenda vildu halda klukkunni óbreyttri en opnunartíma sveigjanlegum. Þá voru um þrjú prósent umsagnaraðila sem vildu sjá aðrar útfærslur, til dæmis sérstakan sumar- og vetrartíma eins og tíðkast á meginlandi Evrópu.

Aðeins tvö fyrirtæki skiluðu inn umsögnum vegna málsins og tengjast þau bæði ferðaþjónustunni, Ice­landair og Berunes farfuglaheimili. Forsvarsmenn flugfélagsins vildu að klukkan yrði óbreytt en eigendur farfuglaheimilisins vildu að klukkunni yrði seinkað um eina klukkustund.

Samtök atvinnulífsins skiluðu inn umsögn þar sem hvatt var til óbreyttrar stöðu og það sama gerði Veðurstofa Íslands. Í ljósi þess að birtustundum eftir hefðbundinn vinnutíma mun fækka þarf vart að koma á óvart að Golfsamband Íslands sendi inn umsögn þar sem hvatt var til óbreytts ástands.

Hið íslenska svefnrannsóknafélag og SÍBS skiluðu inn umsögnum þar sem hvatt var til seinkunar klukkunnar. Umboðsmaður barna skilaði einnig inn áliti. Embættið fagnaði umræðunni en tók ekki afstöðu í málinu.