Meirihluti landsmanna vill fækka lífeyrissjóðum, nærri helmingur þeirra sem taka afstöðu vill að þeim verði fækkað mikið. Fram kemur í könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið að 48,4 prósent vilja fækka þeim mikið, 29,4 prósent vilja fækka þeim aðeins. Rúmlega 20 prósent vilja hvorki fækka þeim né fjölga.

Tæp tvö prósent vilja fjölga þeim og tæpur fjórðungur tók ekki afstöðu til spurningarinnar.

Athygli vekur að karlar eru mun hlynntari fækkun lífeyrissjóða en konur, tæp 60 prósent karla vilja fækka þeim mikið á móti 36 prósentum kvenna. Þá er eldra fólk mun hlynntari fækkun lífeyrissjóða en yngra fólk. Helmingur fólks á aldrinum 18 til 24 ára vill að fjöldinn verði óbreyttur, þá vilja átta prósent þeirra að þeim fjölgi.

Meira en helmingur fólks 45 ára og eldri vill að þeim fjölgi mikið, 64 prósent fólks 65 ára og eldri vilja að þeim fækki mikið.Líkt og greint var frá nýverið nemur rekstrarkostnaður íslensku lífeyrissjóðanna ríflega 25 milljörðum króna á ári. Samkvæmt Landssamtökum lífeyrissjóða er kostnaður við skrifstofu og stjórnun um 8,4 milljarðar á ári.

Afstaða fólks er svipuð þegar litið er til tekna en þegar litið er stöðu á vinnumarkaði vilja 88 prósent fólks á eftirlaunum að lífeyrissjóðum fækki, þar af 58 prósent að þeim fækki mikið.

Afstaða fólks er svipuð þegar litið er til stjórnmálaskoðana nema þegar kemur að stuðningsfólki Miðflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins, yfirgnæfandi meirihluti þeirra vill að lífeyrissjóðum sé fækkað mikið.Könnunin var gerð dagana 17. til 21. september. Könnunin var send á 2.500 manns og svöruðu 1.244. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu. n