Meirihluti nefndar um stofnun þjóðaróperu leggur til að mennta- og menningarmálaráðherra lögfesti stofnun þjóðaróperu á yfirstandandi þingi.

Fagfólk í óperu hefur lengi kallað eftir stofnun þjóðaróperu en slíkar ríkisstofnanir fyrir listir eru til fyrir leikara (Þjóðleikhúsið), dansara (Íslenski dansflokkurinn) og hljóðfæraleikara (Sinfóníuhljómsveit Íslands) en ekki fyrir söngvara.

Eftir að ný sviðslistalög voru samþykkt var sérstök nefnd sett á laggirnar til að kanna kosti og galla stofnunar þjóðaróperu. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur loks birt tillögur nefndarinnar, sem skilaði af sér vinnu í janúar. Meirihlutinn vill greinilega vinna að því að skapa aftur traust á vettvangi óperunnar, sem hefur verið brotið eftir Íslenska óperan neitaði að fylgja samningum við stéttarfélög þrátt fyrir að vísa í þá við samningagerð við listamenn, þar á meðal við uppfærslu á Brúðkaupi Fígarós.

„Nauðsynlegt er að skapa traust og byggja upp stofnun sem á í samstarfi og lifandi innihaldslegu samtali við aðrar liststofnanir og grasrótina í landinu,“ segir í tillögum meirihlutans. Samfélagslegur og listrænn ávinningur sem hlytist með stofnun þjóðaróperu vegur þyngst í áliti meirihlutans og að mati yfirgnæfandi meirihluta fagaðila sem nefndin ráðfærði sig við.

Meirihluti nefndarinnar skilaði jafnframt inn drögum að frumvarpi og leggur til að þau fari í frekari vinnslu í ráðuneytinu. Ljóst er að listamenn eru orðnir þreyttir á að bíða en líkt og Fréttablaðið hefur áður greint frá gerði BÍL slíkt hið sama í lok mars og sendi ráðherra drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sviðslistir nr. 165/2019.

Að meirihlutaáliti nefndarinnar standa Arnbjörg María Danielsen, Páll Baldvin Baldvinsson og Þóra Einarsdóttir.

Í fjölda viðtala nefndarmanna við listamenn og fagaðila kom fram sterk krafa um bætt starfsumhverfi og aukna fagmennsku á vettvangi óperu.

Kasper Holten, leikhússtjóri Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn / Svar við spurningum nefndarinnar dags. 25.1.2021
Laura Berman, óperustjóri ríkisóperunnar í Hannover, 2021 / Svar við spurningum nefndarinnar dags. 25.1.2021.

Sögðu sig frá frekari samvinnu í nefndinni

Ekki var samhugur í nefndinni en Soffía Karlsdóttir, stjórnarmeðlimur Íslensku óperunnar og Hjálmar H. Ragnarsson, sem tilnefndur var af Bandalagi íslenskra listamanna, lögðu fram sérálit og tveir nefndarmenn, sem ekki eru fagfólk í óperu heldur voru tilnefnd af ráðuneytum, Gísli Rúnar Pálmason og Steinunn Sigvaldadóttir, lýstu sig hlutlaus í nefndinni og skiptu þannig atkvæðinu.

Í kaflanum um umræður í tillögum nefndarinnarkom fram að Soffía og Hjálmar neituðu að vinna með öðrum nefndarmönnum eftir þann 28. janúar en ágreiningur var um skilgreiningu á grundvallarhugmyndum.

Mennta- og menningarmálaráðherra segir að á vettvangi ráðuneytisins verði unnið að mati og umfangi og kostnaðargreiningu á stofnun þjóðaróperu og má búast við niðurstöðum fyrir árslok 2021.
Fréttablaðið/samsett mynd

Soffía og Hjálmar skiluðu inn þremur tillögum. Fyrsta tillagan var um stofnun óperuflokks sem myndi semja fyrst við Íslensku óperuna.

„Að meðfram stofnun nýs óperuflokks verði gerður tímabundinn samningur við Íslensku óperuna um verkefnin sem eru framundan. Samningurinn verði byggður á þeim grunni, að á samningstímanum verði hlutverk og markmið Íslensku óperunnar endurskoðuð.“

Önnur tillaga um „sjálfstæða óperu“ líkist núverandi fyrirkomulagi, að ráðuneytið geri samning um rekstur óperustarfsemi við eitt félag eða stofnun á grundvelli auglýsingar með skilgreindum viðmiðum og lýsingu verkefna. Enn og aftur nefnir minnihlutinn Íslensku óperuna í tengslum við þessa tillögu: „Sé rétt að hafa í heiðri framlag Íslensku óperunnar til íslenskrar óperumenningar og byggja til framtíðar á þeirri reynslu og dýrmæta orðspori sem stofnunin hefur aflað sér.“

Þriðja tillaga um „ríkisóperu“ myndi fela í sér að ríkisrekin ópera yrði annað hvort sjálfstæð stofnun eða að óperustarfsemin yrði felld undir Þjóðleikhúsið.

„Yfirbragð þjóðbrembu og yfirlætis“

Minnihlutinn gerði einnig athugasemd um nafnið „þjóðarópera“. „Hugtakið „þjóðarópera“ vekur ýmis viðbrögð, og sérstaklega hjá yngri kynslóðum ber það með sér yfirbragð þjóðrembu og yfirlætis. Undirrituð eru meðvituð um mótsagnirnar sem hugtakið ber með sér, og við viljum því túlka það á sem opnastan hátt og aftengja það frá skírskotunum til einsleitrar þjóðar sem býr í afgirtu landi,“ sagði minnihlutinn.

Lilja D. Alfreðsdóttir ráðherra segir að á vettvangi ráðuneytisins verði unnið að mati og umfangi og kostnaðargreiningu á stofnun þjóðaróperu og má búast við niðurstöðum fyrir árslok 2021.