Meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins styður Bjarna Benediktsson áfram til formennsku í flokknum, að því er fram kemur íMorgunblaðinu í dag.
Fimm til sex þingmenn, eins og því er lýst í Mogganum, hafa enn ekki lýst afstöðu sinni. Flokkurinn á sautján menn á þingi.
Níu þingmenn sem svöruðu Mogganum styðja Bjarna áfram. Það eru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Birgir Ármannsson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason.
Þá segir ennfremur í Mogganum að Diljá Mist Einarsdóttir hafi ekki viljað gefa upp afstöðu sína en var sjálf á stuðningsmannafundi hans í gær. Vilhjálmur Árnason vildi ekki gefa upp afstöðu sína og þá náðist ekki í þá Ásmund Friðriksson, Birgi Þórarinsson, Harald Benediktsson og Njál Trausta Friðbertsson.
Bjarni Benediktsson sagðist í gær ekki sjá fyrir sér annað en að víkja fari það svo að Guðlaugur hafi af honum formannsembættið. Staða Guðlaugs sé hinsvegar annað mál.
„Staða Guðlaugs er svo bara allt annað mál. Ég hef ekki trú á öðru en að við getum unnið úr niðurstöðunni eftir þennan fund,“ segir Bjarni. Það liggi í hlutarins eðli að oddviti Reykjavíkur þurfi að hafa sterka rödd við ríkisstjórnarborðið.