Meira en 76 prósent landsmanna vilja að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðunum. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem samtökin Þjóðareign, hópur áhugafólks um að þjóðin fái sanngjarnt afgjald fyrir auðlindir, lét Gallup gera.

Ef aðeins eru teknir þeir sem afstöðu tóku með eða á móti markaðs­gjaldi er hlutfall stuðningsmanna tæp 93 prósent.

Niðurstöðurnar eru afgerandi þvert á stjórnmálaflokka, aldurs- og tekjuhópa, óháð menntun og því hvort fólk býr á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess.

afstaða eftir búsetu.jpg

Með markaðsgjaldi er átt við að haldið yrði uppboð á veiðileyfum, þannig að útgerðir fengju alltaf sjálfkrafa 90-95 prósent af kvóta fyrra árs í sinn hlut, útboðið næði aðeins til 5-10 prósenta af árlegum heildarafla.

Jákvæðastir eru kjósendur Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar, en 97 prósent kjósenda Pírata segjast vera hlynnt markaðsgjaldi, 100 prósent af kjósendum Viðreisnar og 98 prósent af kjósendum Samfylkingarinnar, ef aðeins eru skoðaðir þeir sem taka afstöðu.

Könnunin var gerð 21. júlí til 4. ágúst. 1.695 manns voru í úrtaki og svarhlutfall var 51 prósent.

Leggjast gegn tillögunni

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, leggjast gegn þeirri tillögu Þjóðareignar að bjóða út 5-10 prósent aflaheimilda árlega.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir tilraunir Færeyinga til að bjóða út aflaheimildir ekki hafa tekist vel.
Fréttablaðið/Stefán

„Uppboð afla hugnast okkur ekki. Reynsla annarra þjóða hefur sýnt að þau gefa ekki góða raun. Það er aukin samþjöppun, aukin skuldsetning, verri umgengni við auðlindina og í ljós kemur að það eru hinir stærri og sterkari sem bera sigur úr býtum á uppboðum. Þannig að ef hugsunin er að halda sjávarútvegi í dreifðri eignaraðild þá eru uppboð ekki ákjósanleg leið,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í samtali við Fréttablaðið.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir veiðigjaldið nú þegar hafa tengingu við markað.

„Samkvæmt lögum greiðir sjávarútvegurinn á Íslandi veiðigjald sem byggir að nokkru leyti á markaðnum fyrir sjávarfang, er 33 prósent af aflaverðmæti. Veiðigjaldið hefur að þessu leyti tengingu við markað með sjávarafurðir,“ segir hann.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Þegar vel árar þá hækkar gjaldið og þegar illa árar þá lækkar það. Nú hefur veiðigjaldið til dæmis hækkað úr 4,8 milljörðum króna í rúma 7 milljarða á milli ára. “

Óvæntur stuðningur þvert á flokka

Þjóðareign hafnar því að útboð muni leiða til þess að stærri útgerðir nái til sín meiri kvóta en nú er, þar sem lög í landinu banni slíkt og þeim þurfi einfaldlega að framfylgja. Þá telja samtökin að útboð myndi tryggja dreifingu og jafnt verð fyrir alla sem bjóða yfir lægsta útboðsverði og auðvelda nýliðun í sjávarútvegi þar sem allir geta boðið í aflaheimildir á opnum markaði.

Bolli Héðinsson, forsvarsmaður samtakanna, segir að til að skapa sátt um sjávarútveg verði að eyða tortryggni. Til þess þarf aðferðin til að úthluta aflaheimildum að vera einföld og gagnsæ. Hann segir óvæntustu niðurstöður könnunarinnar vera hversu afgerandi stuðningur er við hugmyndina þvert á alla flokka. „Þetta er mjög afgerandi stuðningur alls almennings hvar sem borið er niður,“ segir Bolli.

afstaða við stjornmfl.jpg

Heiðrún Lind segir að tilraunir Færeyinga til þess að bjóða upp aflaheimildir hafi ekki heppnast vel.

„Reynsla Færeyinga er sú að það var engin nýliðun í þeim uppboðum sem þeir framkvæmdu. Ég tel uppboð ekki réttu leiðina til að hámarka verðmæti sjávarauðlindarinnar. Síðan liggur fyrir að fyrsta skrefið fælist í því að innkalla þær aflaheimildir sem á að bjóða út. Þessar æfingar myndu mjög fljótt þurrka upp eigið fé í sjávarútvegi og auka á samþjöppun. Það hugnast mér ekki," segir Heiðrún.

Bolli segir að tilraunir Færeyinga til að bjóða út aflaheimildir hafi misheppnast og telur raunar ekki að um eiginlegt uppboð hafi verið að ræða.

Bolli Héðinsson forsvarsmaður Þjóðareignar segir að eyða verði tortryggni til að skapa sátt um sjávarútveg.
Fréttablaðið/Óttar

„Eftir lýsingum að dæma var sú aðgerð öll í skötulíki og fráleitt að hægt sé að miða við hana sem raunhæfan valkost. Það er ekki nóg að gefa hlutunum nafn og segjast þá hafa framkvæmt það sem í nafninu ætti að vera fólgið,“ segir Bolli.