Meirihluti landsmanna treystir núverandi ríkisstjórn illa til að selja restina af eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Það kemur fram í nýrri könnun Maskínu en alls segjast 63 prósent treysta ríkisstjórninni illa. Þá eru að sama skapi 61 prósent fylgjandi því að sett sé á laggirnar rannsóknarnefnd til að skoða söluna á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka í vor.

Alls eru tólf prósent andvíg því að sett sé á stofn rannsóknarnefnd.

Þegar niðurstöðurnar eru greindar frekar má sjá að kjósendur Sjálfstæðisflokksins skera sig frá kjósendum annarra flokka í þessu máli en um fjórðungur þeirra er hlynntur því að rannsóknarnefnd Alþingis rannsaki málið frekar. Það er lægra hlutfall en hjá kjósendum annarra flokka og það er aðeins meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins þar sem fleiri eru andvígir stofnun svona rannsóknarnefndar en hlynntir henni.

Niðurstöðurnar er hægt að kynna sér betur á heimasíðu Maskínu.