Meirihluti landsmanna er ekki mótfallinn því að mynduð verði fjölflokka ríkisstjórn með fleiri en þremur flokkum eftir kosningar, það eru heldur ekki margir hlynntir því.

Þetta kemur fram í könnun Prósents sem gerð var fyrir Fréttablaðið. Þar kemur fram að 35,5 prósent eru hlynnt myndun slíkrar ríkisstjórnar, fleiri eru því andsnúin eða 37,1 prósent. 27,4 prósent eru hvorki hlynnt því né mótfallin.

Meirihluti stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins er mjög mótfallinn myndun slíkrar ríkisstjórnar, aðeins sex prósent þess eru hlynnt því. Þá er meirihluti Framsóknarmanna einnig mótfallinn myndun slíkrar ríkisstjórnar en ekki jafn afgerandi, 42 prósent þeirra eru frekar mótfallin, 19 prósent mjög mótfallin og 15 prósent eru hlynnt.

Meirihluti stuðningsfólks Samfylkingarinnar og Pírata er hlynnt myndun fjölflokkastjórnar. Fleira stuðningsfólk Vinstri grænna er mótfallið slíkri stjórn en er því hlynnt. 36 prósent eru mótfallin á móti 31 prósenti sem er því hlynnt, 34 prósent segja hvorki né.