Meirihluti kjósenda allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi er fylgjandi veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu, NATO. Einnig eru fleiri kjósendur Sósíalistaflokksins fylgjandi aðild Íslands en á móti. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents. Alls styðja 71,6 prósent svarenda aðild að NATO en 11 prósent eru á móti. 17,3 prósent hafa ekki skoðun á málinu.

Í stefnu Vinstri grænna er lögð áhersla á að Ísland segi sig úr NATO. Í stefnu Sósíalistaflokksins segir að koma eigi á friðarbandalagi í samvinnu við nágranna og smáþjóðir sem valkost við NATO. NATO á hins vegar góðan stuðning innan þessara flokka.

53 prósent kjósenda Vinstri grænna styðja aðild Íslands að NATO, þar af eru 20 prósent mjög hlynnt. Aðeins 23 prósent eru andvíg en 24 prósent hafa ekki skoðun á málinu. 47 prósent Sósíalista styðja aðild Íslands að NATO en 40 prósent eru andvíg. Þar á bæ eru reyndar 28 prósent mjög andvíg.

Mestan stuðning á NATO hjá kjósendum Viðreisnar, 93 prósent en aðeins 4 prósent eru andvíg. 89 prósent Sjálfstæðismanna styðja NATO-aðild Íslands og 87 prósent Framsóknarmanna.

Stuðningur innan Samfylkingar, Flokks fólksins, Miðflokksins og Pírata er afar svipaður, á bilinu 65 til 71 prósent. Andstaðan innan Pírata er þó 21 prósent en 9 til 12 prósent innan hinna flokkanna þriggja.

Bæði stuðningurinn og andstaðan við NATO-aðild er meiri á höfuðborgarsvæðinu, 73 og 12 prósent, en á landsbyggðinni þar sem 21 prósent hafa ekki skoðun á málinu.

Þá mælist nokkuð meiri stuðningur hjá körlum en konum, 78 prósent á móti 65, en andstaðan er sú sama, 11 prósent. Nærri fjórðungur kvenna, 24 prósent, hefur ekki skoðun á NATO-aðild.

Þegar kemur að aldri sker yngsti aldurshópurinn sig úr í andstöðu. 50 prósent styðja aðild en 28 prósent eru á móti. Mestur er stuðningurinn hjá 45 til 64 ára, 77 prósent en innan við 10 prósenta andstaða.

Þá er aukinn stuðningur við veru Íslands í bandalaginu eftir því sem launin hækka. 82 prósent af þeim sem hafa 800 þúsund krónur í mánaðartekjur eða meira styðja NATO aðild og aðeins 4 prósent eru á móti. Hjá tekjulægsta hópnum, með undir 400 þúsund krónum, er stuðningurinn 63 prósent en 23 prósent hafa ekki skoðun á málinu.

Könnunin var netkönnun framkvæmd 2. til 13. júní. Úrtakið var 1.780 og svarhlutfallið 50,1 prósent.