Innan við helmingur þeirra sem kusu Vinstri græn í síðustu kosningum myndi kjósa flokkinn aftur nú, ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem Prósent framkvæmdi fyrir Fréttablaðið.

Samkvæmt könnuninni ætla 49 prósent kjósenda VG að kjósa aðra flokka. Rúm 16 prósent þeirra velja Samfylkinguna, 12,4 prósent Sósíalista og rúm 11 prósent þeirra ætla að kjósa Pírata.

Fréttablaðið/Umbrot

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins tryggastir

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru tryggastir sínum flokki en yfir 80 prósent þeirra sem kusu flokkinn í síðustu kosningum myndu kjósa hann aftur og það sama má segja um kjósendur Framsóknarflokksins en 76 prósent kjósenda flokksins myndu aftur greiða honum atkvæði ef kosið yrði til þings í dag.

Kjósendur Miðflokksins eru hins vegar á leið aftur í Framsókn samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Aðeins 58 prósent kjósenda Miðflokksins myndu kjósa flokkinn í dag en 21 prósent þeirra myndi nú kjósa Framsókn.

Aðeins helmingur kjósenda Flokks fólksins myndi kjósa flokkinn færu þingkosningar fram í dag. Umræddir kjósendur dreifast fremur jafnt á fylgi annara flokka.

Hvaða lista myndirðu kjósa ef gengið yrði til þingkosninga nú?

Fylgi Samfylkingarinnar er einnig á mikilli hreyfingu en 59 prósent þeirra sem kusu flokkinn í kosningunum myndu gera það í dag. Þrettán prósent þeirra myndu greiða Pírötum atkvæði sitt og Viðreisn fengi tíu prósent. Þá segjast 6 prósent kjósenda Samfylkingarinnar myndu kjósa Sósíalista nú.

Píratar halda 73 prósentum af sínum kjósendum en missa ellefu prósent þeirra til Sósíalista.

Píratar og Sósíalistar njóta hylli námsmanna

Sósíalistar mælast nú með 6,1 prósents fylgi og fljúga inn á þing. Flokkurinn sækir fylgi sitt einna helst til Pírata, VG og Flokks fólksins.

Flokkurinn nýtur helst hylli meðal námsmanna og láglaunafólks. Þannig segjast rúm 11 prósent námsmanna myndu kjósa Sósíalista.

Athygli vekur að Píratar eru langvinsælasti flokkur námsmanna en tæp 29 prósent þeirra segjast myndu kjósa Pírata. Næst á eftir í fylgi meðal nema koma Sjálfstæðismenn með 16,3 prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn er með 23,6 prósenta fylgi og hefur fylgi flokksins verið mjög stöðugt í könnunum sem gerðar hafa verið fyrir Fréttablaðið á kjörtímabilinu. Það sama má segja um Viðreisn sem er með 10,1 prósent samkvæmt könnuninni.

Fréttablaðið/Umbrot

Vinstri græn mælast nú með tæp 12 prósent. Það er þó töluvert frá kjörfylgi síðustu kosninga þegar flokkurinn fékk 16,9 prósenta fylgi. Þrátt fyrir að könnunin sýni mikinn fylgisflótta til annarra flokka, klípur VG einnig fylgi af öðrum, auk þess sem 11 prósent þeirra sem ekki kusu í síðustu kosningum velja nú VG.

Framsóknarflokkurinn er með 10,6 prósenta fylgi og hefur náð kjörfylgi sínu eftir að hafa mælst töluvert undir því mestallt kjörtímabilið.

Píratar mælast nú með 13,3 prósenta fylgi og Samfylkingin með 12,6 prósent.

Miðflokkurinn rétt lafir á þingi samkvæmt könnuninni. Flokkurinn fær ekki nema 5,6 prósenta fylgi hefur ekki mælst lægri síðan í desember 2018.

Flokkur fólksins er níundi flokkurinn sem nær á þing samkvæmt könnuninni, með fimm prósenta fylgi.

Könnunin var send á könnunarhóp Prósents og svartími var frá 15. til 23. júlí. Í hópnum voru 2.600 einstaklingar á Íslandi, átján ára og eldri og voru svör þeirra vegin eftir kyni, aldri og búsetu. Svarhlutfall var 52 prósent.