Langflestir kjósendur allra stjórnmálaflokka í landinu vilja að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um bann við kjarnorkuvopnum. Meirihluti kjósenda allra flokka vill það líka þrátt fyrir að það hefði í för með sér að Ísland kynni að verða fyrir þrýstingi frá Bandaríkjunum um að gera það ekki. Þetta er á meðal niðurstaðna úr könnun sem gerð var hér á landi á vegum alþjóðasamtakanna International Campaign to Abolish Nuclear Weapons (ICAN). Niðurstöðurnar má sjá myndrænt hér neðst í fréttinni.
Samningur SÞ um bann við kjarnorkuvopnum var samþykktur af 122 af 193 aðildarríkjum SÞ árið 2017 en í október í fyrra höfðu 50 ríki fullgilt hann og tók hann því gildi þann 22. janúar síðastliðinn. Ísland er ekki aðili að samningnum en það virðist vera vegna aðildar landsins að Atlantshafsbandalinu (NATO). Ekkert ríki í NATO hefur skrifað undir samninginn.
Utanríkisráðuneytið sagði í janúar við Fréttablaðið að ástæða þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki stutt við gerð samningsins sé sú að þau telji raunhæfara að nýta samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna til að stefna að kjarnorkulausri veröld.

ICAN framkvæmdi skoðanakannanir í nokkrum aðildarríkjum NATO í Vestur-Evrópu þar sem afstaða almennings til sáttmálans var könnuð. Íslendingar fara þar fremstir í flokki þeirra sem vilja að heimalandið gangi að samningnum. Þannig svöruðu 83% íslenskra svarenda því játandi að þeir vildu að Ísland gerðist aðili að samningnum. Þrjú prósent svöruðu neitandi og rúm 10% sögðust óviss. 751 svöruðu könnuninni.
Þetta er meiri stuðningur við samninginn en hjá öllum öðrum ríkjum þar sem könnunin var gerð. Til að mynda vildu aðeins 72% Ítala gerast aðili að samningnum, 71% Þjóðverja og 66% svarenda í Belgíu og Hollandi.

Mesta andstaðan meðal kjósenda Miðflokks
Í könnuninni var einnig spurt út í stuðning við stjórnmálaflokka en í nýjasta tölublaði Dagfara birtist afstaða kjósenda hvers flokks fyrir sig til samningsins. Þó er vert að athuga að þegar farið er að skipta 751 svaranda niður í svo litla hópa dregur verulega úr marktækni þeirra smæstu og ber því að taka tölunum á bak við smæstu stjórnmálaflokkanna með fyrirvara um það.
Mestur var stuðningur við samninginn meðal kjósenda Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar, Framsóknarflokks, Sósíalistaflokksins og Miðflokksins. Þar var stuðningurinn á bilinu 84-95%. Meðal Sjálfstæðismanna var stuðningurinn 75% en 70% kjósenda Flokks fólksins vilja að Ísland gerist aðili að samningnum. Það eru þó einhverjar ómarktækustu niðurstöðurnar, vegna þess hve fáir svarenda könnunarinnar sögðust vera kjósendur flokksins.
Andstaða við samninginn er afar lítil en hjá öllum flokkum var hlutfallið á bilinu 0-8% nema hjá Miðflokki þar sem 13% sögðust mótfallnir því að Ísland tæki þátt í samkomulaginu.
Þrýstingur Bandaríkjanna hefði ekki áhrif á meirihluta Sjálfstæðismanna
Þá vekur sérstaka athygli að meirihluti íslenskra kjósenda telur óþarft að fylgja öðrum NATO ríkjum í þessu máli. Eftir að þátttakendur höfðu verið spurðir hvort þeir vildu að Ísland gerðist aðili að samningnum var borin upp önnur spurning, um hvort þeir vildu að Ísland gerðist aðili að samningnum þrátt fyrir að það kynni að hafa í för með sér þrýsting frá Bandaríkjunum um að gera það ekki.

Sú spurning skilaði nálega sömu niðurstöðum hjá kjósendum Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Sósíalistaflokksins en óákveðnum fjölgaði nokkuð í hópi kjósenda Viðreisnar. Stuðningur Framsóknarmanna, Miðflokksmanna, kjósenda Flokks fólksins og Sjálfstæðisflokksins fór þó nokkuð niður við þessa spurningu. Samt sem áður vildi meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokks, 57%, að Ísland gerðist aðili að samningnum þrátt fyrir að það kynni að vera gert í óþökk Bandaríkjamanna.
Hér fyrir neðan má sjá svör kjósenda hvers flokks fyrir sig við báðum spurningum og þannig hvernig afstaðan breytist þegar þrýstingur Bandaríkjamanna er tekinn með í reikninginn. Þessar niðurstöður birtust í nýjasta tölublaði Dagfara, sem er gefið út af Samtökum hernaðarandstæðinga.