Meirihluti kjósenda í Árborg er hlynntur breytingum á aðal- og deiluskipulagi miðbæjar Selfoss. Báðar breytingatillögur voru samþykktar í íbúakosningu sem fram fór í dag. Kosningin er bindandi.

Lokatölur hafa verið kunngjörðar. Á kjörseðlinum voru tvær spurningar. Sú fyrri sneri að breytingum á aðalskipulagi en sú síðari að deiliskipulagi miðbæjarins á Selfossi. Kjörsókn var rétt undir 55 prósentum en alls voru 6.631 á kjörskrá. Af þeim kusu 3.640.

Þegar kom að breytingu á aðalskipulagi voru 2.130 voru hlynntir, eða 58,5 prósent, en 1.425 voru andvígir. Auðir og ógildir seðlar voru 85 talsins. 

Hvað varðar breytingar á deiliskipulagi voru 2.034 hlynntir, 55,9 prósent, en 1.434 andvígir. Auðir og ógildir seðlar voru 172 talsins.

Að sögn Ingimundar Sigurmundssonar, formanns yfirkjörstjórnar, gekk utanhald kosningarinnar vel í dag.

Síðasta bæjarstjórn Árborgar samþykkti í febrúar nýtt aðal- og deiliskipulag. Í kjölfarið spruttu fram tvær fylkingar, sem ýmist hafa verið hlynntar því, eða á móti. Ákveðið var að halda íbúakosningu eftir að fjöldi fólks skrifaði undir undirskriftalista.