Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti stöðu jafnlaunavottunar á ríkisstjórnarfundi í vikunni. Á fundinum kom fram að kallað hefði verið eftir upplýsingum um stöðu jafnlaunavottunar hjá ríkisstofnunum frá öllum ráðuneytum og höfðu upplýsingar borist frá 122 sem öðlast eiga vottun fyrir áramót.

Alls hafa 35 opinberir aðilar af þessum 122 fengið jafnlaunavottun, 43 stefna á að öðlast hana fyrir áramót og 42 eru í innleiðingarferli sem ekki er gert ráð fyrir að klárist fyrir áramót. Tvær stofnanir hafa ekki hafið innleiðingarferli, Lánasjóður íslenskra námsmanna og Samkeppniseftirlitið.

Öllum opinberum stofnunum, sjóðum og fyrirtækjum sem eru að hálfu eða að meirihluta rekin af ríkinu og þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri ber samkvæmt lögum að hafa öðlast jafnlaunavottun fyrir 31. desember 2019. Sömu lög gilda um öll fyrirtæki þar sem starfa fleiri en 250 manns. Heimilt er að beita dagsektum verði skilyrði laganna ekki uppfyllt.

Katrín Jakobsdóttir telur ólíklegt að það takist að klára innleiðingarferli þeirra 85 aðila sem samkvæmt lögum skuli öðlast vottun fyrir áramót en hafa enn ekki gert það. „Ég er bjartsýn á að þetta verði allavega komið af stað hjá þeim sem heyra undir lögin en ég á ekki von á því að það verði klappað og klárt fyrir áramót,“ segir hún.

„Þetta er verkefni sem fór hægt af stað en hefur tekið við sér og ferlið er þannig að gert er ráð fyrir að sjálfstæð vottunarstofa veiti vottunina. Þeim hefur fjölgað og það hraðar á ferlinu,“ segir Katrín.