Þá má segja að við höfum gefist upp á þessu,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri um þá ákvörðun Skógræktarinnar að framlengja ekki leigusamninga við hjólhýsaeigendur í Þjórsárdal.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku fengu leigjendur bréf í síðustu viku þar sem þeim var tilkynnt að til stæði að loka hjólhýsabyggðinni. Verða leigjendur að fjarlægja hjólhýsin, palla og annað fyrir 1. júní á næsta ári.

Yfir hundrað hjólhýsi eru á staðnum og snertir ákvörðunin um 300 til 400 manns. Hafa margir hverjir farið í dýrar framkvæmdir við hjólhýsin.

„Það var ekki síst vegna þess að það var ekki hægt að fá meirihluta fólks til að fylgja reglum svæðisins,“ segir Þröstur aðspurður um ástæður ákvörðunarinnar. „Því miður bitnar þetta á þeim sem hafa staðið sig vel, en það er minnihlutinn.“

Þröstur segir beinar fjárhagslegar ástæður ekki hafa legið að baki lokuninni og ekki standi til að loka öðrum svæðum á vegum Skógræktarinnar. „Þetta er eina svæðið sem við erum að gefast upp á,“ segir hann. „Þarna mun nú fá að vaxa skógur.“

Heiðveig María Einarsdóttir, formaður Félags áhugamanna um hjólhýsabyggð í Þjórsárdal, gagnrýndi fyrir helgi þann stutta fyrirvara sem leigjendur hafa til þess að hreinsa svæðin og að lögmaður félagsins sé nú að skoða réttarstöðu þeirra.

Þröstur segir ekkert annað hafa verið í boði en að gera þetta með þessum hætti. „Við getum ekki sagt upp samningum eftir að þeir eru útrunnir. Það skrifa allir undir samning til eins árs í senn og við bara tilkynntum að við hygðumst ekki reka svæðið áfram eftir að núgildandi samningar renna út,“ segir hann.

„Okkur fannst það bærilega heiðarlegt af okkur að gefa fólki heilt ár til að spá í sín mál.“