Rúmlega 300 manns komu með Norrænu í land á Seyðisfirði á þriðjudag. Þeir framvísuðu nánast allir gildum bólusetningarvottorðum. Framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi, útgerðar Norrænu, segir fjölda ferðamanna vera að aukast.

Norræna kom á þriðjudag til Seyðisfjarðar og gengu 296 farþegar í land. Af þeim framvísuðu 222 gildum bólusetningarvottorðum, samkvæmt tilkynningu frá aðgerðastjórn á Austurlandi. Þar segir enn fremur að þetta sé svipað hlutfall og hjá flugfarþegum er fara um Leifsstöð. Óbólusettir virðast því flestir halda sig heima við enn sem komið er.

Linda Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi, segist finna fyrir aukningum í bókunum. Sú breyting hefur orðið að ferðamenn hringja meira á skrifstofurnar til að leita sér upplýsinga og þá er hægt að nýta sér ferðina sem tveggja daga sóttkví.

„Við erum að sjá vöxt núna og bara í júlí eru eðlilegri tölur í kortunum. Þær eru auðvitað langt frá tölunum 2019 en það er verið að sýna Íslandi mikinn áhuga sem ferðamannastað. Við teljumst öruggt land enda framarlega í bæði sóttvörnum og bólusetningum,“ segir Linda.

Hún segir að æ fleiri taki upp símann og athugi stöðuna í stað þess að panta á netinu. Sérstaklega þeir sem séu að stoppa lengi hér á landi. Það sé breyting frá því fyrir Covid þegar margir nýttu sér internetið til að klára sína pöntun. „Við finnum það á ferðaskrifstofunum okkar erlendis og líka hjá þeim sem eru að fara frá Íslandi með skipinu – þeir þurfa mikið að ræða málin. Svo breytist það kannski aftur.“

Stutt er síðan að Norræna gekkst undir allsherjar andlitslyftingu. Útgerð skipsins ákvað að nýta tímann í faraldrinum til að gera breytingar á skipinu fyrir tvo milljarða króna, bætti við káetum, veitingastað og heilli hæð svo fátt eitt sé nefnt

„Maður sér það og finnur að það er mikil gleði með skipið. Fólk er að njóta þess enn betur að ferðast með skipinu. Þótt við séum búin að bæta við heilli hæð er skipið enn stöðugt og fínt þannig að við erum mjög ánægð með breytingarnar og spennt fyrir komandi tímum.

Ég var einmitt að heyra í okkar fólki í Færeyjum og það er svolítið að gerast það sem okkur grunaði. Ferðatímabilið er að lengjast út á haustið. Við erum búin að fá mikið af stórum pöntunum í ágúst og september þannig að þetta sumartímabil sem hefur alltaf verið vinsælast er að lengjast. Það eru líka komnar fínar bókanir í september og október þannig að ég spái því að við eigum örugglega eftir að rétta úr kútnum ágætlega hratt hvað varðar fjölda ferðamanna,“ segir Linda.

Farþegar með Norrænu mega nota siglingartímann sem sóttkví. Allir eru skimaðir áður en þeir fara um borð.