Líklegt má telja að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem fá COVID-19 muni ekki hljóta langvarandi lungnaskaða. Þetta segir Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítala.

Nokkuð hefur fjallað um að fólk sem hafi greinst með COVID-19 eigi enn eftir að ná fyrri kröftum, mörgum vikum eftir að það er sagt laust við kórónaveiruna.

Í svari Jóns á Vísindavef Háskóla Íslands segir að þeir sem verði alvarlega veikir af COVID-19 geti búist við því að það taki dágóðan tíma að ná sér að fullu og mögulega marga mánuði.

Regluleg hreyfing hámarki bata

„Í vissum tilfellum verða einhverjar breytingar í lungnavef, sem gæti leitt til þess að lungnastarfsemi verði ekki að fullu eðlileg ári eftir veikindin. Þetta áréttar mikilvægi endurhæfingar í kjölfar COVID-19.“

Með reglulegri hreyfingu og öðrum úrræðum sé hægt að hámarka bata eftir alvarleg veikindi og um leið minnka langtímaafleiðingar.

„Frekari rannsóknir og reynsla mun færa okkur nær því markmiði.“

Röntgenmynd af lungum í sjúklingi með MERS.
Wikimedia Commons

Flestir fá væga lungnasýkingu

Að sögn Jóns fá flestir sem sýkjast af COVID-19 einungis væga sýkingu í efri öndunarfæri. Gögn bendi til þess að bati eftir slík veikindi geti tekið dágóðan tíma en sé almennt góður og engar langtímaafleiðingar hljótist af.

Hins vegar geti sjúkdómurinn líka valdið alvarlegri sýkingum sem nái niður í lungun, einkum í þann huta lungnanna þar sem loftskipti fara fram.

Skýr svör liggi ekki fyrir

„Í alvarlegustu tilfellunum verður til ástand sem kallast brátt andnauðarheilkenni (e. acute respiratory distress syndrome), þar sem mikið bólgusvar og vefjaskemmdir fara saman. Við það minnkar geta lungna til að koma súrefni yfir í blóðið og þaðan til annarra vefja.“

Ekki liggi fyrir skýr svör um nákvæmar langtímaafleiðingar af þessum alvarlegu sýkingum í ljósi þess að of stutt er liðið.

Þá sé flókið að heimfæra afleiðingar fyrri kórónaveirusýkinga á borð við SARS og MERS í ljósi þess að dánarhlutfall þeirra er hærra en fyrir COVID-19.