Könnun Gallup mælir mikla andstöðu við laxeldi í sjókví. Hefur gríðarlega eyðileggingu í för með sér, að sögn verndarsinna. Viðhorfin sýna að við þurfum að upplýsa landsmenn betur, segir framkvæmdastjóri laxeldisfyrirtækis.

Meirihluti landsmanna, eða 55,6 prósent, er neikvæður gagnvart laxeldi í opinni sjókví samkvæmt könnun sem North­atlantic­salmonfund lét Gallup gera í ágúst. 23,3 prósent segjast hlutlaus, 21,1 prósent er jákvætt.

Elfar Friðriksson, framkvæmdastjóri Northatlanticsalmonfund, Verndarsjóðs villtra laxastofna, segir það mjög sterk skilaboð að meirihluti landsmanna sé gegn sjóeldinu.

„Iðnaðurinn hefur stækkað gríðarlega hratt og Ísland er að vakna upp við vondan draum. Umræðan hefur að mestu snúist um peninga, en fólk er farið að sjá að þetta mál er risastórt náttúru- og dýraverndarmál,“ segir hann.

Elfar segir enga tilviljun að náttúru­verndarsamtök um allan heim berjist af alefli gegn þessum iðnaði. „Eldið hefur gríðarlega eyðileggingu í för með sér. Það er ekki ásættanlegt að við séum enn að stækka úreltan og stórskaðlegan iðnað.“

fisk.JPG

Samkvæmt könnuninni nefna jákvæðir gagnvart sjóeldinu at­vinnusköpun og gjaldeyristekjur sem höfuðkosti. Helstu mótrök eru neikvæð umhverfisáhrif, hætta á blöndun við villtan lax og dýraníð.

„Það er ekki bara hægt að tala um atvinnusköpun og láta svo náttúruna greiða allan kostnaðinn,“ segir Elfar.

Gallup spurði fleiri spurninga. Önnur niðurstaða er að sögn Elfars sú að 30 prósent svarenda segja að ef stjórnmálaflokkur myndi beita sér gegn laxeldi í sjókví myndi það hafa áhrif á ráðstöfun atkvæðis þeirra.

„Pólitíkin þarf að taka þessi skilaboð alvarlega. Ráðamenn þurfa að stíga fram. Þessi mál eru ekki einkamál Vestfirðinga og Austfirðinga,“ segir Elfar.

Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis, segir vegna þeirrar niðurstöðu könnunarinnar að meirihluti landsmanna sé gegn sjókvíaeldi:

„Við finnum jákvæð viðbrögð í þeim samfélögum sem við störfum í. Þar fólk sem sér starfsemi greinarinnar á hverjum degi er það mjög jákvætt. Nú er það hlutverk okkar að spýta í lófana til að upplýsa landsmenn um hve frábæra atvinnugrein við erum að byggja upp í sátt við náttúru og umhverfi,“ segir Jens.

Að sögn Jens er þó ekki hægt að blása með öllu á þau mótrök gegn eldinu sem nefnd eru í könnuninni. Fyrirtækin séu samt sem áður mjög meðvituð um ábyrgð sína. Innan laxeldisfyrirtækjanna og utan, sem dæmi hjá eftirlitsstofnunum, séu strangar vöktunaráætlanir.

„Við leggjum áherslu á velferð og viljum starfa í sátt við umhverfið, enda eigum við hvað mestra hagsmuna að gæta í þeim efnum.“

Könnunin var netkönnun. 1.641 nafn var valið í handahófskenndu úrtaki, 48,9 prósent svöruðu.