Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, segir meirihlutaviðræður Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar í Reykjavík ganga vel.

Fulltrúar flokkanna fjögurra hafa fundað í rafstöðvarhúsinu í Elliðaárdalnum frá því snemma í morgun og munu sitja við fram eftir degi að sögn Einars.

„Við höfum farið yfir alla málaflokka með einhverjum hætti og það er bara góður andi í hópnum,“ segir Einar.

Aðspurður hvort búið sé að klára viðræður um alla málaflokka segir Einar svo ekki vera en að yfirferð sé langt komin.

Einar segir góða samstöðu um breytingar í Reykjavík og vonast til að hægt sé að ljúka viðræðunum sem fyrst.

„Þetta þarf að vera klárt fyrir þriðjudag og fundurinn hefst klukkan 14,“ segir Einar en fyrsti borgarstjórnarfundur á nýju kjörtímabili fer fram þá.

Aðspurður hvort búið sé að ræða skiptingu í embætti segir Einar það hafa verið rætt en að því sé ekki lokið. Þá vildi hann ekkert tjá sig um viðræður um borgarstjórastólinn.