Viðræður L-listans, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar um að mynda meirihluta á Akureyri hafa verið slitnar. Þetta staðfestir Halla Björk Reynisdóttir, bæjarfulltrúi L-listans í samtali við Fréttablaðið.

Halla segir Sjálfstæðisflokk og Framsókn hafa svikið heiðursmannasamkomulag flokkanna og hafið viðræður við aðra flokka um myndun meirihluta.

Henni skyldist að þær viðræður væru komnar nokkuð langt á leið og sagði ekki ólíklegt að L-listinn myndi enda í minnihluta.

L-listinn vann kosningasigur og er stærsti flokkurinn með þrjá menn inni. Meirihlutinn gæti þó endað án hans, myndu hinir flokkarnir semja sín á milli.