Afli íslenskra fiskiskipa í síðastliðnum ágústmánuði var rúmlega 131 þúsund tonn, það er 16 prósentum meiri en í saman mánuði í fyrra. Um 32 prósent aflans voru uppsjávarafli eða rúm 89 þúsund tonn og var makríll meginuppistaða þess afla.

Botnfiskafli var tæp 39 þúsund tonn í ágúst og jókst um tíu prósent miðað við sama mánuð á síðasta ári og voru rúm tuttugu þúsund tonn af lönduðum afla þorskur. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Samdráttur var í afla skel- og krabbadýra líkt og síðustu mánuði en í ágúst á þessu ári veiddust 610 tonn sem er ellefu prósenta samdráttur miðað við ágúst 2019.

Heildarafli á tólf mánaða tímabili frá september 2019 til ágúst 2020 var rúmlega 1.011 þúsund tonn sem eru sjö prósentum minni afli en á sama tímabili ári fyrr.