Öll kennsla hjá 9. bekk í Hagaskóla hefur verið felld niður í dag eftir að mygla fannst í kennslurými árgangsins.

Í tilkynningu frá skólastjóra segir að ekki sé ljóst hvar kennsla 9. bekkjar muni fara fram. Næstu dagar verði því notaðir til að finna húsnæði og skipuleggja kennslu.

Frekar upplýsingar verði sendar til foreldra síðdegis í dag en þetta er ekki í fyrsta skipti sem mygla finnst í Hagaskóla.

Mygla greindist nýlega í álmu 8. bekkjar Hagaskóla og var kennsla felld niður þar í tvo daga þar til ákveðið var að færa kennslu árgangsins tímabundið yfir í húsnæði Hótel Sögu.

Fréttablaðið greindi frá því að leiga fyrir 2. hæð á Hótel Sögu kosti Reykjavíkurborg um 3,4 milljónir með virðisaukaskatti, frá 19. nóvember til 21. desember. Innifalið í því er leiga á húsgögnum, viðhald, hiti og rafmagn.

Ekki er vitað hversu lengi kennsla fer fram í hús­næðinu því enn er verið að vinna að fram­kvæmda­á­ætlun en búist er við því að það verði alla­vega fram að jóla­fríi.

Í bréfi skólastjóra segir einnig að rakaskemmdir hafi fundist í álmu 10. bekkinga og er það mál í skoðun. Verkfræðistofan Efla vinnur að frekari greiningu á niðurstöðum og endanlegri ástandsskýrslu.