Vandi þeirra sem lagst hafa inn á Vog undanfarin tvö ár er nú alvarlegri en áður, samkvæmt tilkynningu frá Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann.
Seinustu tvö ár hafa einkennst af takmörkunum vegna heimsfaraldurs Covid-19 og á þeim tíma hefur áfengis- og fíkniefnavandi orðið alvarlegri.
Fleiri sem leggjast inn á Vog glíma við daglega drykkju og ópíóíðaneyslu miðað við árið fyrir faraldurinn. Þá eru einnig hærra hlutfall þeirra sem sprauta ópíóíða í æð.

„Mikilvægi þess að standa vörð um þjónustu til fólks með fíknsjúkdóm hefur sjaldan verið meira og nú þegar loks hillir undir endalok þessa veirufaraldurs,“ segir í tilkynningu SÁÁ.
Eftirspurn eftir innlögnum hefur aukist síðustu mánuði, samkvæmt tilkynningunni, og bíða nú um 750 manns eftir meðferð.
Innlögnum fækkar hjá nítján ára og yngri
Í tilkynningunni segir að tekist hafi að halda úti meðferðastarfi þrátt fyrir almennar raskanir í faraldrinum. „Mikil áhersla var lögð á að halda sjúkrahúsinu opnu þrátt fyrir fjöldatakmarkanir og íþyngjandi sóttvarnaraðgerðir,“ segir þar.

Innlögnum á sjúkrahúsið Vogi fækkaði um tuttugu prósent árið 2020 og færri komu í fyrstu innlögn. Mest fækkaði í aldurshóp þeirra sem eru yngri en fjörutíu ára.
Aftur fjölgaði innlögnum árið 2021 um tíu prósent og fyrstu innlögnum fjöldaði um fjórtán prósent. Fjölgunin er nokkuð jöfn milli aldurshópa nema að enn fækkar innlögnum þeirra sem eru nítján ára eða yngri.
„Sérstaklega hefur verið hugað að snemmtæku inngripi fyrir ungmenni 25 ára og yngri með fíknsjúkdóm og er fækkunin því ekki vegna skerðingar á aðgengi í Covid,“ segir í tilkynningunni.