Vandi þeirra sem lagst hafa inn á Vog undan­farin tvö ár er nú al­var­legri en áður, sam­kvæmt til­kynningu frá Sam­tökum á­huga­fólks um á­fengis- og vímu­efna­vandann.

Seinustu tvö ár hafa ein­kennst af tak­mörkunum vegna heims­far­aldurs Co­vid-19 og á þeim tíma hefur á­fengis- og fíkni­efna­vandi orðið al­var­legri.

Fleiri sem leggjast inn á Vog glíma við dag­lega drykkju og ópíóíða­neyslu miðað við árið fyrir far­aldurinn. Þá eru einnig hærra hlut­fall þeirra sem sprauta ópíóíða í æð.

Hlutfall sjúklinga með áfengisgreiningu á sjúkrahúsinu Vogi sem drekka daglega.
Aðsend mynd/SÁÁ

„Mikil­vægi þess að standa vörð um þjónustu til fólks með fíkn­sjúk­dóm hefur sjaldan verið meira og nú þegar loks hillir undir enda­lok þessa veirufar­aldurs,“ segir í til­kynningu SÁÁ.

Eftir­spurn eftir inn­lögnum hefur aukist síðustu mánuði, sam­kvæmt til­kynningunni, og bíða nú um 750 manns eftir með­ferð.

Innlögnum fækkar hjá nítján ára og yngri

Í til­kynningunni segir að tekist hafi að halda úti með­ferða­starfi þrátt fyrir al­mennar raskanir í far­aldrinum. „Mikil á­hersla var lögð á að halda sjúkra­húsinu opnu þrátt fyrir fjölda­tak­markanir og í­þyngjandi sótt­varnar­að­gerðir,“ segir þar.

Hlutfall sjúklinga sem nota sterka ópíóíða á sjúkrahúsinu Vogi.
Aðsend mynd/SÁÁ

Inn­lögnum á sjúkra­húsið Vogi fækkaði um tuttugu prósent árið 2020 og færri komu í fyrstu inn­lögn. Mest fækkaði í aldurs­hóp þeirra sem eru yngri en fjöru­tíu ára.

Aftur fjölgaði inn­lögnum árið 2021 um tíu prósent og fyrstu inn­lögnum fjöldaði um fjór­tán prósent. Fjölgunin er nokkuð jöfn milli aldurs­hópa nema að enn fækkar inn­lögnum þeirra sem eru ní­tján ára eða yngri.

„Sér­stak­lega hefur verið hugað að snemmtæku inn­gripi fyrir ung­menni 25 ára og yngri með fíkn­sjúk­dóm og er fækkunin því ekki vegna skerðingar á að­gengi í Co­vid,“ segir í til­kynningunni.