„Eftirlit með fyrirtækjum og einstaklingum sem bjóða upp á einhvers konar ferðaþjónustu og upplifanir er lítið sem ekkert,“ segir Stefán Örn Arnarson hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar í svari til Fréttablaðsins.

Lögreglunni voru sendar spurningar í kjölfar fréttar um bandarísk hjón sem lýstu meintum svikum íslensks ferðaskipuleggjanda.

„Þá er það grunur lögreglu að umtalsverð starfsemi, tengd ferðamönnum, sé „svört“ starfsemi þar sem aðilar starfa án leyfa og án þess að gera skil á opinberum gjöldum,“ bætir Stefán Örn við.

Að sögn Stefáns Arnar væri ekki erfitt að beita sér í málum sem tengjast svikum gegn ferðamönnum.

„Ágætis lausn væri að hafa lítið teymi sem hefði meðal annars það verkefni að kanna leyfi og réttindi aðila í ferðaþjónustu,“ svarar Stefán Örn. Gæti það verið með svipuðu sniði og gert sé með skemmtistaði og dyraverði.

„Að mínu mati hlýtur það að aukast, það er starfsemi án leyfa, samhliða aukningu ferðamanna hingað til lands. Þá höfum við séð kippi annars staðar, til dæmis í framboði vændis, sem hefur aukist til muna eftir að ferðamannaiðnaðurinn tók við sér á sínum tíma,“ segir Stefán Örn.