Undirbúningur er hafinn á níundu ruslasöfnuninni á Hornströndum og brátt verður opnað fyrir umsóknir. Alls hefur félagið, sem kallar sig Hreinni Hornstrandir, flutt tæp 43 tonn af rusli frá hinum óbyggðu víkum og fjörðum á átta árum.

„Þetta er engin afslöppunarferð heldur hörkupúl og unnið á miklum hraða,“ segir Gauti Geirsson, forsprakki félagsins.

Gauti var að vinna sem háseti á farþegabát árið 2014 þegar franskur ljósmyndari fór til Hornstranda til að mynda náttúrufegurðina. „Honum ofbauð svo plastið og ruslið í fjörunum að hann myndaði það frekar og sýndi í Frakklandi,“ segir hann. Gauti segir að þetta hafi opnað augu hans og fleiri heimamanna sem ákváðu að gera eitthvað í málinu.

Á hverju ári er tekið fyrir afmarkað svæði og kembt. Í sumar er stefnt á ferð 24. til 25. júní og tínslu í Furufirði á austurströndinni. Gauti segir ferlið komið upp í góðan vana og árangurinn á hverju ári góðan. Félagið er með styrktaraðila og einnig aðstoðar Ísafjarðarbær við förgun og Landhelgisgæslan við flutning. Varðskip sér um flutningana.

Færri komast að en vilja því áhuginn er afar mikill. Grunnurinn er hópur af heimafólki á Ísafirði en fleiri fá að taka þátt. Til dæmis ungt fólk í námi í háskólasetrinu eða fólk frá öðrum landsvæðum sem vilji hjálpa til. Aðeins er pláss fyrir 25 manns en umsækjendur eru oft á bilinu 50 til 70. Í eitt skipti voru þeir um 200.

Gauti segir að í hverri ferð séu fylltir 60 til 70 stórir saltpokar af rusli. Það stærsta og þyngsta eru kaðlar, netabútar og fleira tengt veiðarfærum. Einnig eru alls kyns hlutir sem gætu verið upprunnir á landi. Flöskur, brúsar, pokar, umbúðir og alls kyns plasthlutir. „Ég held að við höfum fundið hluti frá öllum löndum við Norður-Atlantshafið,“ segir hann.

Árið 2020 kláraði félagið að fara eina yfirferð yfir allar þær víkur og firði Hornstranda þar sem mikið rusl safnast saman. Árið 2021 var því byrjað á yfirferð númer tvö í Hlöðuvík. „Það var pínu ógnvænlegt að sjá meira rusl í víkinni þá en þegar við tíndum þar fyrst,“ segir Gauti. Árið 2014 voru 5 tonn tínd þar en 6,3 tonn árið 2021. Bendir þetta til að ærið verkefni sé fyrir hendi í sumar.

Gauti Geirsson, forsprakki Hreinni Hornstranda.
Mynd/aðsend