Raforkumál eru enn til trafala í Venesúela en bilanir í orkuverum hafa valdið því að ekkert rafmagn hefur verið á hýbýlum fólks í 14 af 23 ríkjum landsins undanfarna daga, að því er Guardian greinir frá.

Þannig þurfti að stöðva neðanjarðarlestarkerfið í höfuðborginni Caracas og þá var ekki hægt að halda uppi venjulegri starfsemi í flestum búðum né heldur opinberum stofnunum. Rúmlega 57 prósent af netþjónum landsins hafa legið niðri vegna þessa.

Einungis eru þrjár vikur síðan að rafmagnsleysi varð í nánast öllu landinu en um var að ræða versta rafmagnsleysi í sögu landsins. Nicolás Maduro, forseti landsins, sagði við tilefnið að ástæðurnar mætti rekja til „erlendra illverkja og hryðjuverkamanna“ sem vildu steypa landinu í óreiðu. 

Þar vísaði hann meðal annars í Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem rekið hefur harða baráttu gegn honum undanfarna mánuði og hefur ítrekað óskað eftir því að kosið verði á ný til forseta landsins. Talið er að þær rafmagnstruflanir sem komu þá upp megi rekja til skógarelda sem að eyðilögðu lykilhluta í orkuneti landsins.

Ástandið í landinu hefur verið afar eldfimt undanfarna mánuði, vegna óðaverðbólgu og lakra lífskjara fólks en líkt og áður hefur komið fram hefur Nicolás Maduro ítrekað neitað að segja af sér og nýtur hann enn stuðnings hersins.