Meira en helmingi landsmanna finnst hvorki að hækka eigi né lækka laun alþingismanna. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið.

Rúm 53 prósent svara hvorki né þegar spurt er hvort þeim finnist að hækka eigi eða lækka laun þingmanna. Um 40 prósent vilja að þau lækki, þar af um 20 prósent að laun þeirra lækki mikið.

Tæp fimm prósent vilja að laun þeirra hækki lítillega, 1,4 prósent vilja að þau hækki mikið. Um sjö prósent svarenda tóku ekki afstöðu.

Þingfararkaup er nú 1.285.411 krónur, við það geta svo bæst ýmsar greiðslur. Yngsti aldurshópurinn vill helst að laun þingmanna lækki, tæplega 40 prósent fólks á aldrinum 18 til 24 ára vildu að þau lækkuðu mikið.

Skýrar línur má sjá þegar kemur að menntun svarenda, meira en helmingur þeirra sem hafa lokið grunnskólaprófi vill að laun þingmanna lækki, samanborið við 30 prósent þeirra sem hafa lokið framhaldsnámi á háskólastigi.

Sömu þróun má sjá þegar litið er til tekna, þeir sem hafa lægri tekjur eru mun líklegri til að vilja að laun þingmanna lækki samanborið við fólk með hærri tekjur.

Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins var líklegast til að vilja hækka laun þingmanna eða vilja halda þeim eins og þau eru, 21 prósent Sjálfstæðismanna vill lækka laun þingmanna. Stuðningsfólk Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands var langlíklegast til að vilja lækka þau. 31 prósent Sósíalista vill að launin standi í stað og 23 prósent stuðningsfólks Flokks fólksins.

Þá vill einnig meira en helmingur stuðningsmanna Pírata að laun þingmanna lækki.Könnunin var gerð dagana 17. til 21. september, hún var send á 2.500 manns og svöruðu 1.244. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.