Um 56 prósent Banda­ríkja­manna telja að Donald Trump ætti að vera vikið úr em­bætti Banda­ríkja­for­seta áður en kjör­tíma­bili hans lýkur þann 20. janúar næst­komandi en þetta kemur fram í nýrri könnun sem Ipsos fram­kvæmdi fyrir ABC News á dögunum.

Margir kenna nú Trump um ó­eirðirnar við þing­húsið í Wasington, D.C., síðast­liðinn mið­viku­dag þar sem stuðnings­menn Trumps réðust inn í þing­húsið á meðan þingið var að stað­festa úr­slit for­seta­kosninganna. Fimm manns, þar af einn lög­reglu­maður, létust í ó­eirðunum.

Áður en þingið kom saman hafði Trump á­varpað stuðnings­menn sína og skipað þeim að arka að þing­húsinu til að mót­mæla, sem þeir og gerðu. Þá neitaði hann í upp­hafi að for­dæma stuðnings­menn sína og birti mynd­band þar sem hann sagðist elska þá. Degi síðar for­dæmdi hann loks ó­eirðirnar.

Mikil umræða skapaðist í Bandaríkjunum í kjölfarið þar sem margir kröfðust þess að 25. viðauka bandarísku stjórnarskránnar yrði virkjuð og Mike Pence yrði þá gerður að forseta. Þá hafa einnig margir kallað eftir því að Trump verði aftur ákærður til embættismississ (e. impeached). Ekki eru þó allir sammála um hvað ætti að gera.

Fleiri telji að Trump hafi átt þátt í óeirðunum

Sam­kvæmt könnuninni, sem var fram­kvæmd 8. og 9. janúar þar sem 570 Banda­ríkja­menn yfir 18 ára aldri svöruðu, telja rúm­lega 15 prósent að Trump hafi átt ein­hvern þátt í ó­eirðunum og 52 prósent sögðu Trump hafa átt stóran þátt í þeim.

Niður­stöðurnar voru að mestu í sam­ræmi við flokks­línur þar sem 94 prósent Demó­krata sögðust vilja Trump burt á móti 13 prósent Repúblikana. Flestir sem töldu að Trump ætti að vera vikið úr em­bætti töldu að hann hefði átt ein­hvern eða stóran þátt í ó­eirðunum.

Tæp­lega helmingur þeirra sem svöruðu að Trump ætti ekki að vera vikið úr em­bætti sögðu að að­gerðir Trumps hafi verið rangar en þar sem svo stutt væri í að Joe Biden tæki við þá væri það ekki þess virði.

Þá var einnig spurt út í stuðning við Joe Biden, verðandi Banda­ríkja­for­seta, en fleiri sögðust treysta Biden og Demó­krötum til að varð­veita lýð­ræðið. Aug­ljóst er þó að klofningur sé innan þjóðarinnar, ekki síst innan Repúblikana­flokksins, en þing­menn Repúblikana eru í sí­fellt meiri mæli að snúast gegn Trump.