Útboð hefur nú verið auglýst fyrir markaðsherferðina Saman í sókn, til þess að kynna Ísland sem áfangastað. Er þetta ein af þeim sjö aðgerðum sem kynnt var á fyrsta viðbragðsfundi ríkisstjórnarinnar við COVID-19 þann 10. mars.

„Útboðið er í flýtiferli,“ segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu. „Við viljum vera tilbúin til að setja verkefnið af stað með skömmum fyrirvara ef við sjáum merki um að ferðaáhugi sé að glæðast.“

Samkvæmt Pétri fylgist Íslandsstofa vel með á mörkuðum til að hafa haldbær gögn til að byggja á. En það geti verið misjafnt eftir markaðssvæðum hvenær ferðavilji myndast. COVID-19 faraldurinn hefur komið mishart niður á ríkjum og topparnir á mismunandi tímum.

pétur.png

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu

Pétur segir að fjárheimild verkefnisins sé 1500 milljónir króna. En auk þess leggi Íslandsstofa til fé og mannskap til að keyra verkefnið. „Samhliða því sem unnið er að undirbúningi markaðsverkefnisins eru í gangi aðgerðir til skemmri tíma svo sem á samfélagsmiðlum og gagnvart erlendum söluaðilum á ferðum til Íslands,“ segir hann.

Ljóst er að verkefnið verður umtalsvert stærra í sniðum en Inspired by Iceland var á sínum tíma. En það var gert til að mæta vanda ferðaþjónustunnar eftir gosið í Eyjafjallajökli vorið 2010. Framlag ríkisins var þá 350 milljónir króna en Reykjavíkurborg, Iceland Express, Íslandsstofa, 80 ferðaþjónustufyrirtæki og fleiri aðilar lögðu einnig til fé. Heildarframlagið var því 700 milljónir. Reyndist þetta átak drjúgt og ferðamannageirinn tók vel við sér í kjölfarið eins og allir þekkja.

Aðspurður um hvort að þetta átak verði byggt upp á sama hátt segir Pétur of snemmt að segja til um það. „Við hlökkum til að sjá þær hugmyndir sem koma fram hjá skapandi fólki í útboðinu og munum byggja verkefnið upp í samræmi við þær í samráði við hagaðila,“ segir hann.