Tala látinna eftir jarð­skjálfta sem skall á Haítí í gær er komin í 724 og fjölda er enn saknað. Jarð­skjálftinn varð í gær­morgun að staðar­tíma og var 7,2 að stærð í suð­vestur­hluta landsins og er á­standið þar verst. Sumir spítalar eru yfir­fullir og sár­vantar birgðir.

Björgunar­fólk leitar nú að eftir­lif­endum í rústunum, í kappi við tímann.

„Öskur berast um göturnar. Fólk er að leita að ást­vinum eða að­­föngum, læknis­hjálp, vatni,“ segir erk­­idjákninn Abia­de Lozama, sem fer fyrir kirkju í bænum Les Ca­yes sem fór illa út úr jarð­­skjálftanum.

Fjöldi bygginga eru rústir einar og hefur for­­sætis­ráð­herrann Ariel Henry lýst yfir mánaðar­löngu neyðar­á­standi og hvatt þjóðina til að standa saman á þessum erfiðu tímum. Gríðar­­legur jarð­­skjálfti skall á eyjunni árið 2010 þar sem mörg hundruð þúsund létust. Haítí, fá­tækasta landið á vestur­hveli jarðar, er enn að glíma við eftir­­­köst hans. Þar búa 11 milljónir og 59 prósent íbúa lifir undir fá­tækar­mörkum.

Kona á sjúkra­börum í Les Ca­yes.
Fréttablaðið/EPA

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti hefur heitið að­stoð og Sam­einuðu þjóðirnar sömu­leiðis. Auk þess hefur ná­granna­ríkið Dóminíska lýð­veldið boðið fram matar­að­stoð og að senda sjúkra­gögn til Haítí. Kúb­versk stjórn­völd hafa sent meira en 250 lækna þangað.