Alls voru 73 börn, 18 mánaða og eldri, á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík í byrjun mánaðarins.

Þetta kemur fram í svari skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Í svari sviðsins í apríl 2019 voru tíu börn, 18 mánaða og eldri, á biðlista fyrir haustið 2019. Voru þá ástæður helst að foreldrar vildu bíða eftir ákveðnum leikskóla eða báðu um lengri umhugsunartíma.

Samkvæmt úttekt sem gerð var á biðlistunum í síðustu viku voru þar 35 börn sem voru orðin 18 mánaða gömul í september. Í svarinu segir að um hafi verið að ræða nýjar umsóknir frá því að alalinnritun fór fram auk þess sem foreldrar vilji bíða eftir plássi á ákveðnum leikskóla. Er þá fyrirhugað að hafa samband við þá foreldra þó ekki sé hægt að bjóða þeim pláss í skólanum sem sótt var um. 258 börn undir 18 mánaða eru komin með pláss á leikskóla.

Alls eru 510 börn, tólf mánaða og eldri, á biðlista eftir leikskólaplássi. Flest í Laugardal og Háaleiti, eða 155.

Marta segir stöðuna ekki góða. „Það er alveg sama hvort þetta séu gamlar eða nýjar umsóknir, þessi 73 börn eru ekki að fá pláss. Svo eru 510 börn tólf mánaða og eldri að bíða. Þetta er svakalegur fjöldi,“ segir hún.

Fram hefur komið að á dagskrá sé að reisa sex nýja leikskóla, fjölga plássum um 800 og stöðugildum um 300 á fimm árum. Marta segir tölurnar tala sínu máli. „ Meirihlutaflokkarnir eru ekki að uppfylla þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar og í meirihlutasáttmálanum um að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla,“ segir Marta. „Þau geta ekki tryggt að öll börn 18 mánaða og eldri fái leikskólapláss, þessar tölur sýna að þau eru langt frá því að geta boðið öllum pláss við eins árs aldur.“