„Þegar ég var sautján ára nemandi í MH var mér nauðgað af vini mínum og skólabróður. Þegar ég safnaði loksins kjarki til að segja skólayfirvöldum frá því mættu mér lokaðar dyr," svona hefst pistill Brynhildar Karlsdóttur, leikstjóra og tónlistakonu en hún er einnig fyrrum nemandi Menntaskólans við Hamrahlíð.

Pistilinn var birtur á vef Vísis í dag. Brynhildur skrifar pistilinn í kjölfar byltingar nemenda í Menntaskólanum við Hamrahlíð vegna aðgerðaleysis skólastjórnenda við tilkynningum þolenda vegna meints kynferðisofbeldis.

Brynhildur segist reið yfir því að ekkert hafi breyst á þeim rúmum tíu árum frá því að hún greindi frá kynferðisofbeldinu við stjórnendur skólans.

„Kvíðaköst, ótti og áfallastreita breyttu því ekki að ég hafði aldrei kært atvikið til lögreglu og skólastjórnendur gátu ekki boðið mér betur en að skipta um skóla," segir Brynhildur sem flosnaði upp úr námi eftir að hún skipti um skóla.

Brynhildur rifjar upp tímann sem ofbeldið átti sér stað og segir bestu vinkonu sína hafa verið í svipuðu stríði á þeim tíma. „Hún kærði hrottalega nauðgun og studdi mál sitt með veigamiklum sönnunum. Samt þurfti hún að rekast á ofbeldismanninn á göngum skólans og sitja með honum í dönskutímum."

Að sögn Brynhildar fékk vinkona hennar hvergi réttlæti, enginn hafi passað upp á hana og að hún hafi ein verið látin axla ábyrgð á því ofbeldi sem hún varð fyrir, þá sautján ára gömul. Árið 2019 hafi hún framið sjálfsvíg.

„Nú, meira en tíu árum síðar, tekur nemandi í MH af skarið, tekur sér rauðan varalit í hönd og notar hann sem skriffæri, skrifar skilaboð sín stórum stöfum á spegil í skólanum. „Af hverju er ég að labba á sömu göngum og nauðgarar?“ Þetta veit ég vegna þess að ég á bæði systur og mágkonu í MH, þær lýsa hálfgerðri byltingu meðal nemenda, hrífandi mótmælagjörningi og áhrifamikilli aðgerð. Þær lýsa nöfnum sem letruð eru á speglana, eins og til að segja: „Passið ykkur á þessum“. Allt inniber þetta skýra kröfu nemenda um réttlæti," segir Brynhildur.

Hún segir viðbrögð skólastjórnenda vegna málsins lýsandi, að afskrifa uppátækið sem múgæsing eða „fjöldahysteríu“. Strax sé hanskinn tekinn upp fyrir strákana og ekkert mark tekið á þolendum, „meira að segja speglarnir fengu meiri samúð en þær!“

Brynhildur segist reið vegna málsins. „Það mætti halda að stefna skólans sé vísvitandi að klúðra viðkvæmum málum á kostnað þolenda, sama stefna og þegar ég var nemandi, framfylgt af sama starfsfólki.“

Að sögn Brynhildar hefur lítið breyst innan veggja skólans og ef strákum er ekki kennt að hætta nauðga þá verði að verja stelpur fyrir þeirri lítilsvirðingu að skólayfirvöld taki ekki mark á þeim.

Nemendur MH mótmæla.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Glímir þú við sjálfs­víg­hugsanir er hægt að ræða málin við sér­þjálfaða ráð­gjafa Rauða krossins í hjálpar­símanum, 1717, eða á net­spjalli Rauða krossins. Einnig reka Píeta samtökin gjaldfrjálsa þjónustu fyrir fólk í sjálfsvígshættu, sem glímir við sjálfsvígshugsanir og aðstandendur þeirra. Númerið hjá þeim er 552 -2218.