Karl­maður er í haldi lög­reglunnar í Hollandi grunaður um að hafa stolið mál­verkum eftir hollensku list­málarana Vincent van Gogh og Frans Hals. Mál­verkunum var stolið á meðan lista­söfnin þar sem þau voru til sýnis voru lokuð vegna sam­komu­tak­markana af völdum kóróna­veiru­far­aldursins.

Tals­maður hollensku lög­reglunnar segir að sá hand­tekni sé 58 ára gamall en hann var hand­samaður í bænum Baarn. Lista­verkin hafa ekki skilað sér í réttar hendur og hollenska lög­reglan hefur biðlað til al­mennings ef ein­hver hafi upp­lýsingar um hvar verkin er að finna.

Málverkin sem voru til sýnis á Singer safninu í fyrra.
Fréttablaðið/EPA

Verkum van Gogh sem voru til sýnis á Sin­ger Laren safninu í ná­grenni Amsterdam var stolið í mars á síðasta ári. Fimm mánuðum síðar brutust mál­verka­þjófar inn í Hof­je Van Aer­d­en-safnið sem er stað­sett í Leer­dam ná­lægt Utrecht og stálu verkum Hals, sem máluð voru 1626.

Mál­verki Hals, Tveimur hlæjandi strákum, hefur verið stolið tvisvar áður í tæp­lega 400 ára sögu þess. Síðast þegar því var stolið árið 2011 náði hollenska lög­reglan að endur­heimta það með því að hafa hendur í hári ein­stak­linga sem freistuðu þess að koma verkinu í verð.