Íslendingur sem nú er í haldi lögreglu í Murcia-héraði á Spáni vegna gruns um barnaníð hlaut fangelsisdóm á Íslandi fyrir kynferðisbrot gegn drengjum í Vestmannaeyjum.
Eins og Fréttablaðið sagði frá í gær hefur maðurinn samkvæmt spænskum fjölmiðlum verið handtekinn grunaður um brot gegn börnum sem hann hafi lokkað til sín með sælgæti og peningum.
Maðurinn, sem fæddur er á árinu 1961, var dæmdur í Hæstarétti árinu 1994 vegna brota gegn fjórum drengjum í Vestmannaeyjum á árunum 1990 til 1992. Fórnarlömbin voru á aldrinum níu til tólf ára.
Samkvæmt ákærunni hafði maðurinn boðað einn drenginn á sinn fund og sýnt honum kvikmynd með klámi og látið drenginn „afklæðast að nokkru leyti, farið höndum um getnaðarlim drengsins og tekið lim hans í munn sér og jafnframt tekið getnaðarliminn út á sjálfum sér og handleikið hann í viðurvist drengsins,“ eins og segir í ákærunni.
Þá hafi hann sömuleiðis sýnt öðrum dreng klámkvikmynd, tekið út getnaðarlim sinn og beðið drenginn „um að fara höndum um hann,“ sem pilturinn hafi neitað og látið sig hverfa.
Maðurinn hafi sýnt næsta pilti klámblöð í bíltúr að Helgafelli og þreifað inn undir buxur drengsins og fróað sjálfum sér við hlið barnsins.
Fjórða drenginn í málinu hafi maðurinn einnig farið með í bíltúr og sýnt klámblöð. Hann hafi síðan fróað sér eftir að drengurinn hafi neitað að „handleika“ kynfæri hans.
Neitaði sök
Við meðferð málsins neitaði maðurinn staðfastlega sök að því er fram kemur í dómsskjölum frá þeim tíma. Drengirnir héldu fyrir sitt leyti fast í vitnisburð sinn.
„Við áframhaldandi rannsókn málsins hafa drengirnir í litlu sem engu kvikað frá því sem eftir þeim var haft,“ segir í umfjöllun Héraðsdóms Suðurlands. Misræmis hafi ekki orðið vart í framburði þeirra hvers um sig. „Þá styðja þær skýrslur sem mæður drengjanna gáfu fyrir dómi í öllum meginatriðum þá niðurstöðu að málsatvik hafi verið með þeim hætti sem drengirnir hafa lýst.“
Segir síðan í dómnum að þrátt fyrir eindregna neitun mannsins þykir ekki varhugavert að leggja framburð drengjanna til grundvallar og að þannig sé komin full sönnun um sekt mannsins.