Krafist verður gæsluvarðhalds í fyrramálið yfir manninum sem handtekinn var í dag, grunaður um skotárás í Hafnarfirði. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Fréttablaðið.
Greint hefur verið frá því að maðurinn sem um ræðir sé á sjötugsaldri og að hann hafi gefið sig sjálfviljugur fram um tuttugu mínútur yfir tólf í hádeginu í dag.
Atvikið átti sem stað í Miðvangi í Hafnarfirði í morgun verður rannsökuð sem tilraun til manndráps. Skotið var á að minnsta kosti tvær bifreiðar fyrir utan Miðvang 41. Fram hefur komið að í annari bifreiðinni hafi verið maður, ásamt sex ára syni sínum, en þeir eiga að hafa verið á leið í leikskóla drengsins þegar atvikið átti sér stað.
Mikill viðbúnaður lögreglu og sérsveitarinnar var á svæðinu sem var afgirt en umsátur lögreglunnar stóð yfir í rúmar fjórar klukkustundir áður en maðurinn gaf sig fram.
„Við héldum að þetta væri djók þegar maðurinn minn las um þetta á netinu,“ sagði íbúi sem á heima í grennd við vettvang málsins við Fréttablaðið í dag.
„Maðurinn minn fór niður í póstkassa að sækja blaðið og honum mætir full lyfta af lögreglumönnum. Þeir spyrja hann hvert hann sé að fara. Svo þeir fóru og náðu í blaðið fyrir hann og sendu hann aftur inn í íbúð,“ sagði íbúinn jafnframt og bætti við „Þetta hús er rólegasta hús í heimi og alltaf svo dásamlegt.“

