Angeljin Mark Sterkaj, sem játað hefur að hafa skotið Armando Beqirai til bana í Rauðagerði laugardaginn 13. febrúar síðastliðinn, er eftirlýstur í Albaníu vegna vopnaðs ráns.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins barst íslenskum stjórnvöldum krafa um framsal hans en íslensk stjórnvöld synjuðu henni, með vísan til fyrningarákvæða í íslenskum lögum. Umrætt framsalsmál var til meðferðar hér á landi áður en morðið var framið en Angeljin hefur verið búsettur á Íslandi í nokkur ár.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skýrði frá játningunni á blaðamannafundi í gær. Angeljin hefur verið í haldi síðan 16. febrúar en hann neitaði sök í málinu í fyrstu. Á blaðamannafundinum kom fram að hann hefði játað eftir að sönnunargögnum gegn honum fjölgaði og morðvopnið fannst.

Óttuðust falska játningu í málinu

Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn og Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segjast hafa óttast falska játningu í málinu á fyrstu stigum rannsóknarinnar vegna tenginga við skipulagða brotastarfsemi. Þau sönnunargögn sem aflað hafi verið í málinu styðji hins vegar vel við játningu mannsins.

Aðspurð um hvers kyns gögn hafi stutt við játninguna nefnir Hulda meðal annars fjarskipta- og símagögn, upptökur og framburði vitna. Þá hafi skotvopnið einnig reynst mikilvægt.

Hall­a Berg­þór­a Björns­dótt­ir lög­regl­u­stjór­inn á Höf­uð­borg­ar­svæð­in­u, var á blað­a­mann­a­fund­in­um í gær á­samt Marg­eir­i Sveins­syn­i yf­ir­mann­i mið­læg­u deild­ar­inn­ar og Huld­u Elsu Björg­vins­dótt­ur yf­ir­manns á á­kær­u­svið­i.

Vissu um byssu í fórum mannsins í janúar

Um er að ræða 22 kalibera skammbyssu sem fannst í sjó við strendur höfuðborgarsvæðisins fyrir nokkrum vikum en staðfest var í síðustu viku að byssan hefði verið notuð við verknaðinn. Byssan hafi verið í löglegri eigu einstaklings en henni síðar stolið.

Að sögn Margeirs var um að ræða safnara eða áhugamann um skotvopn sem hafði fengið leyfi til að flytja byssuna til landsins. Aðspurður segir hann hljóðdeyfinn sem notaður var með byssunni ekki hafa verið í eigu safnarans, honum hafi verið komið á síðar.

Heimildir Fréttablaðsins herma að lögreglan hafi fengið upplýsingar um skotvopn í fórum hins grunaða þann 19. janúar, eða tæpum mánuði áður en morðið var framið. Margeir segir hins vegar ekkert hafa bent til þess áður en morðið var framið að það kynni að vera yfirvofandi.

Að sögn Huldu hefur rannsókn málsins verið viðamikil og ákærusvið gert um það bil hundrað kröfur um rannsóknarúrskurði, svo sem um gæsluvarðhald, húsleitir, fjarskiptagögn og fleira.

„Sönnunargögnin hafa ekki beint stokkið upp í fangið á okkur,“ segir Hulda og vísar til þess að þau hafi ekki fengið neinar ábendingar um staðsetningu skotvopnsins heldur hafi lögreglumönnum tekist að lesa milli línanna í framburðum.

„Sönnunargögnin hafa ekki beint stokkið upp í fangið á okkur.“

„Það var bara fyrir skarpskyggni lögreglumanna sem eru greinilega með mikið innsæi og athyglisgáfu sem leiddi til þess að þeir áttuðu sig á því hvar morðvopnið var. Í raun og veru var það alveg með ólíkindum að það skyldi hafa fundist,“ segir Hulda og bætir við að það hafi einnig verið ákveðin heppni að vel hafi viðrað þegar leitin fór fram þar sem byssan sást strax.

Möguleg aðkoma annarra enn til rannsóknar

Margeir segir rannsókninni hvergi lokið þótt játning liggi fyrir. „Það má skipta þessu í svona þrjú stig; það er skipulagið fyrir, verknaðurinn, og svo eftir. Þannig að við erum bara komin með númer tvö því að hitt er enn í rannsókn.“

Hulda segir enn fremur að verið sé að rannsaka mögulegan þátt annarra einstaklinga í málinu, þar á meðal mögulegan samverknað eða hlutdeild en einnig mögulega tálmun lögreglurannsóknar með því að reyna að koma sönnunargögnum undan.

„Það er alveg skýrt frá okkar hendi varðandi þátt þess sem við segjum að sé sterkur grunur um að hafi banað Armando umrætt sinn. En síðan er hitt sem við erum að vinna aðeins betur í.“

Aukið eftirlit og fólk í felum vegna hættu á hefndaraðgerðum

Fjórtán einstaklingar frá tíu löndum hafa réttarstöðu sakbornings í málinu. Á blaðamannafundinum kom fram að lögregla hefur gripið til aðgerða vegna vísbendinga um mögulegar hefndaraðgerðir eða uppgjör ákveðinna hópa gegn hinum grunuðu.

Margeir segir sjaldgæft að slíkum aðgerðum sé beitt í sakamálum af þessu tagi en þær hafi verið notaðar í heimilisofbeldismálum. Meðal aðgerða sem gripið er til er að láta einstaklinga fá öryggishnapp til þess að kalla eftir aðstoð, setja krækju á símanúmer með beintengingu við lögreglu, flytja viðkomandi á annan stað, eða auka eftirlit.