Greint hefur verið frá nafni mannsins sem sakaður er um að hafa myrt breska í­halds­þing­manninn David Amess í þar­lendum fjöl­miðlum. Þing­maðurinn var stunginn til bana á fundi með kjós­endum í kjör­dæmi sínu í Essex á Eng­landi.

Hinn grunaði heitir Ali Harbi Ali og er 25 ára gamall breskur ríkis­borgari ættaður frá Sómalíu. Hryðju­verka­lög­reglu barst á­bending um hann fyrir nokkrum árum en ekki var gripið til form­legra að­gerða að þeim sökum.

Ali er nú í gæslu­varð­haldi, fram á föstu­dag hið minnsta, en á­kæra gegn honum ekki verið birt. Breska lög­reglan skil­greindi morðið sem hryðju­verk í gær og getur því yfir­heyrt Ali í lengri tíma án þess að gefa út á­kæru en hægt er í öðrum saka­málum.

Faðir hans, Harbi Ali Kulla­ne, var eitt sinn ráð­gjafi for­sætis­ráð­herra Sómalíu. Lög­regla hefur rætt við hann og tekið síma hans til rann­sóknar. Auk þess hefur verið leitað á þremur stöðum í London vegna málsins.