Annar mannanna sem situr í gæslu­varð­haldi og talinn er hafa haft í hyggju að undir­búa hryðju­verk hér á landi hunsaði spurningar blaðamanns Fréttablaðsins þegar hann var leiddur fyrir héraðs­dóm í dag.

Hann fékk tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald, þar sem honum verður haldið í einangrun.

Gæslu­varð­hald yfir báðum mönnunum átti að renna út í dag en krafist var á­fram­haldandi varð­halds yfir þeim báðum á meðan rann­sókn málsins stendur yfir.

Fyrr í dag var hinn maðurinn úr­skurðaður í tveggja vikna á­fram­haldandi gæslu­varð­hald og verður hann hafður á­fram í ein­angrun, eins og þeir hafa báðir verið síðan þeir voru úr­skurðaðir í gæslu­varð­hald.

Báðir mennirnir verða því í gæsluvarðhaldi í tvær vikur í viðbót.

Úrskurðurinn kærður til Landsréttar

Verjandi mannsins sem leiddur var fyrir héraðsdóm fyrr í morgun, Ómar Örn Bjarnþórsson, hefur kært úrskurðinn til Landsréttar, en hann hefur áður gagnrýnd fyrirkomulag gæsluvarðhaldsins og þá sérstaklega að skjólstæðingur hans sé vistaður í einangrun.

„Þetta er orðið alltof langt nú þegar og fimm vikur í einangrun getur haft alvarlegar og varanlegar afleiðingar fyrir heilsu hans,“ segir Ómar Örn.

Einar Oddur Sigurðsson, lögmaður hins mannsins sem leiddur var fyrir dóminn, hefur einnig kært úrskurðinn til Landsréttar.