Landsréttur telur meint kynferðisbrot Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, gegn Carmen Jóhannsdóttur fallast undir brot samkvæmt spænskum lögum. Í gær felldi Landsréttur úr gildi frávísunarúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli héraðssaksóknara gegn Jóni Baldvini.

RÚV greindi fyrst frá og staðfestir lögmaður Jóns Baldvins í samtali við Fréttablaðið. Hefur héraðsdómi verið gert að taka málið til efnismeðferðar.

Brotavettvangur á Spáni

Ákæru á hendur Jóni Baldvini Hannibalssyni var upphaflega vísað frá í héraðsdómi á þeim grundvelli að meint kynferðisbrot gegn Carmen Jóhannsdóttur taldist ekki falla undir brot sem lýst er í spænska ákvæðinu um kynferðislega misnotkun sem vísað var til í ákærunni.

Car­men kærði Jón Bald­vin til lögreglu í mars í fyrra fyrir kynferðislega áreitni á heimili hans og eiginkonu hans, Bryndísar Schram, í bænum Salobreña í Andalúsíu að lokum leik Íslands og Argentínu í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Móðir Carmenar er sögð hafa orðið vitni að þessu en Jón Baldvin hefur sagt vitnisburð hennar ótrúverðugan.

Vegna þess að brotavettvangur er á Granada á Spáni taldi Jón Baldvin ekki sýnt fram á að heimilt væri að refsa honum fyrir brotið á Íslandi.

Í úrskurðinum sagði Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari ekki betur séð en að spænska lagagreinin væri mikið frábrugðin íslensku lagaákvæði um kynferðislega misnotkun.

„Er það mat dómsins að ákærði beri að njóta vafans um þetta og ber því að taka kröfu hans til greina og vísa málinu frá dómi,“ kom fram í úrskurði héraðsdóms.

Skilgreining á kynferðisbrot samkvæmt spænskum hegningarlögum.

Ágreiningur um refsilögsöguna lítur að því hvort sú háttsemi sem Jóni Baldvin er gefin að sök sé í raun refsiverð á Spáni þar sem hið meinta brot átti sér stað. Það er einnig meginregla í sakamálaréttarfari að refsiheimildir í lögum séu skýrar og afdráttarlausar.

Í niðurstöðu Landsréttar segir að íslenska þýðingin á spænka lagaákvæðinu sé ekki hnökralaus. Hins vegar verði ráðið af orðalagi þess að það taki til kynferðislegrar áreitni í skilningi íslenska ákvæðisins sem fjallar um kynferðislega áreitni. Svo er vísað í lögskýringargögn um lýsingu á refsiverðu athæfi sem felist meðal annars í hvers konar snertingu á líkama annarrar manneskju sem er andstæð góðum siðum og samskiptaháttum.

Jón Baldvin hefur enn ekki tekið afstöðu til ákærunnar en við þingfestingu málsins krafðist verjandi hans frávísunar málsins. Málið fer nú aftur til meðferðar í héraði þar sem vænta má þess að Jón taki formlega afstöðu til ákærunnar.