Haf­steinn Karls­son, skóla­stjóri Sala­skóla, segir í að­sendri grein á Vísiað það sé mikil­vægt grípa inn með meiri festu en smit­gát býður upp á en Sala­skóli hefur verið meðal þeirra skóla sem hefur tekið upp á meina börnum í smit­gát að mæta í skólann.

Skóla­stjórar hafa verið settir í það hlut­verk að á­kveða hvaða börn fara í sótt­kví og smit­gát en engin heimild er fyrir því í sótt­varnar­lögum að þeir taki slíkar á­kvarðanir eins og Bjarni Már Magnús­son, prófessor í lög­fræði við HR, hefur bent á.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins hafa for­eldrar barna í Sala­skóla ekki verið á­nægðir með á­kvörðun skóla­stjórans og spyr móðir barns í skólanum á Face­book m.a. að því hvernig í ó­sköpunum það sé í lagi að skóla­stjórn­endur á­kveði það með sjálfum sér að börn sem séu í smit­gát megi ekki mæta í skóla eða frí­stund. Skólastjórinn réttlætir þetta með hugtaki sem finnst hvergi í sóttvarnarlögum sem hann kallar heimasmitgát.

Í að­sendri grein sinni segir Haf­steinn hins vegar að smit­gáttin sé ekki að virka.

„Satt best að segja hefur smit­gát reynst afar vara­söm að­ferð og bein­línis magna upp smit í skólum. Fjöl­mörg til­felli hafa komið upp þar sem barn í smit­gát fær nei­kvætt úr fyrra prófi en já­kvætt úr því seinna. Barnið hefur því verið í skólanum í þrjá daga berandi smit. Þá byrjar nýr smit­hringur, ný truflun á dag­legu lífi barnanna og fjöl­skyldna þeirra. Til þess að kveða niður smit í skólum þarf að grípa inn með meiri festu en smit­gát býður upp á,“ skrifar Haf­steinn.

Sam­kvæmt embætti land­læknis má fólk í smit­gát mæta í vinnu eða skóla og kemur skýrt fram á vef Land­læknis að fólk í smit­gát sé ekki í sótt­kví. Það sé ein­fald­lega beðið um að fara var­lega og gæta vel að per­sónu­bundnum sótt­vörnum.

Um 590 nemendur eru í Salaskóla.
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Vinnur með hug­takið heima­smit­gát sem er eins konar milli­stig

Í grein sinni á Vísi talar Haf­steinn hins vegar um nýtt hug­tak sem er ekki komið frá sótt­varnar­yfir­völd né em­bætti Land­læknis sem hann kallar „heima­smit­gát“

„Að undan­förnu hefur þróast hug­takið heima­smit­gát sem er eins konar milli­stig milli sótt­kvíar og smit­gátar. Börnin mæta ekki í skólann en geta verið frjálsari heima. Þessi leið hefur reynst vel við að stöðva smit í skóla og er minni truflun fyrir heimilis­lífið. Hún er ekki skil­greind af sótt­varnar­yfir­völdum svo ég viti,“ skrifar Haf­steinn sem sér samt einn galla á þessari leið.

„Sá böggull fylgir henni reyndar að for­eldrar fá ekki vott­orð fyrir vinnu­veit­endur eins og þeir fá ef barn er í sótt­kví. Kannski væri betra kalla þessa á­gætu leið barna­sótt­kví og skil­greina hana sér­stak­lega.“

„Þegar ógn steðjar að ber skóla­stjóri á­byrgð“

Hafsteinn réttlætir „heima­smit­gáttina“ og „barna­sótt­kvínna“ á þeim for­sendum að skóla­stjórar þurfi að bregðast við ógninni sem veiran veldur.

„Skóla­stjóri ber á­byrgð á skóla­starfinu og þar með að tryggja börnum og starfs­fólki sem öruggast um­hverfi. Þegar ógn steðjar að ber skóla­stjóri á­byrgð á að bregðast við og leitast við að bægja ógninni frá. Nú er veiran ógnin en við skóla­stjórar höfum fá verk­færi til að takast á við þessa hana. Þeir geta þó ekki setið að­gerða­lausir hjá þegar smit hættu­legs sjúk­dóms koma upp í skólanum. Eðli­legt er að þeir treysti á að þar til bær yfir­völd geri það sem þarf að gera til að ráða við smit­far­aldur í skóla. Ef verk­færin sem verið er að nota virka ekki og valda jafn­vel meiri skaða á ekki að nota þau, hvað sem reglur segja,“ skrifar Haf­steinn.

Á annað hundrað klukkustunda vinna í smitrakningu

Í Frétta­blaðinu í gær greindi Magnús Þór Jóns­­son, skóla­­stjóri Selja­­skóla og ný­­kjörinn for­­maður Kennara­­sam­bands Ís­lands, að á­lagið vegna co­vid-tengdra starfa væri mikið og rúmast ekki innan starfs­­skyldna skóla­­stjórn­enda.

Haf­steinn tekur undir með kollega sínum og segir skóla­stjóra hafa þurft að sitja við á kvöldin og um helgar að að­stoða við smitrakningu.

„Ég hef sjálfur varið í þetta síðast­liðnar vikur vel á annað hundrað klukku­stunda utan við minn vinnu­tíma. Auk þess fer mikill hluti dag­vinnu­tíma í þetta og önnur verk­efni frestast eða sitja á hakanum á meðan,“ skrifar Haf­steinn.

Í Noregi fara börn ekki í sótt­kví, þau sem hafa átt í sam­skiptum við smitaðan ein­stak­ling er ráð­lagt að taka heima­próf. Sömu reglur gilda í Dan­mörku, nema að þeim er ráð­lagt að taka PCR-próf. Svipað er uppi á teningnum í Sví­þjóð og í Bret­landi.

Magnús Þór hefur kallað eftir því að fyrir­komu­laginu verði breytt enda með öllu ó­tækt að skóla­stjórar séu að taka stjórn­valds­á­kvarðarnir sem for­eldrar eru jafn­vel ó­sáttir við.