Óbirtar niðurstöður úr viðamikilli rannsókn sýna fram á að 16 prósent þátttakenda eldri en 18 ára hafa undanfarið orðið þolendur glæpa á internetinu. Mikil aukning hefur orðið á rógburði eða meiðyrðum á netinu.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við HÍ, og Jónas Orri Jónasson, sérfræðingur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, gerðu snemmsumars mælingu á reynslu Íslendinga af netbrotum í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Rannsóknin sýnir að sigið hefur á ógæfuhliðina er kemur að rógburði og meiðyrðum. Alls eru glæpir sem varða meiðyrði eða rógburð á netinu tæplega 40 prósent allra brota sem þolendur greindu frá.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor hjá HÍ.
Fréttablaðið/Valgarður

„Þarna er um talsverða aukningu að ræða, því rétt um 30 prósent nefndu þessi brot árin 2018 og 2020,“ segir Helgi. „Hlutfall persónulegs óhróðurs á netinu jókst umtalsvert á Covid-tímabilinu.“

Umfang þessara brota hefur aldrei mælst meira en í ár. Fylgikvillar farsóttarinnar leynast því víða að sögn Helga. Innilokun og samkomubönn virðast hafa brotist fram í meira persónubundnu níði á netinu en áður.

Mikil umræða hefur orðið um bakslag undanfarið í málefnum samkynhneigðra. Spurður hvort vísbending sé um að jaðarhópar hafi farið verr út úr Covid-tímanum en meginstraumshópar í ljósi niðurstaðna rannsóknarinnar, segir Helgi:

„Já, jaðarhópar hafa væntanlega orðið meira fyrir þessum Covid-áhrifum en aðrir. Það verður bergmálshellir í einverunni á Covid-tímanum, netið kemur sterkar inn sem samskiptatæki. Menn verða dómharðari gagnvart því sem þeim finnst aðeins öðruvísi og þá virðist aukin hætta á neikvæðum áhrifum fyrir samkynhneigða eða hinsegin fólk,“ segir Helgi.

Þeir sem helst telja að þeir hafi orðið þolendur internetsglæpa eru flestir undir þrítugu. Fleiri karlar en konur telja sig fórnarlömb. Margir þátttakenda nefndu að hafa orðið fyrir fleiri en einu broti.

Auðvelt er að sögn Helga að slengja fram persónulegum óhróðri um nafngreindar persónur á netinu svo sem í athugasemda- eða kommentakerfum. Ljóst er að mörgum svíður undan reynslu af því tagi. Ekki virðist vanþörf á að brýna fyrir netverjum að sýna aðgát í nærveru sálar og viðhafa meiri háttvísi í samskiptum á netinu, að sögn Helga.

Helgi segir áhugavert að hlutfall kynferðislegrar áreitni á netinu hafi aukist í kjölfar #MeToo-bylgjunnar sem reið yfir Vesturlönd árið 2017. Ekki sé ósennilegt að aukin meðvitund um brot af þessu tagi skýri aukninguna. Hótun um ofbeldi skipi stærri sess en nokkru sinni. Alls 26 prósent brotanna séu þess eðlis nú í stað 17 og 21 prósents áður.

Kynferðisleg áreitni er nefnd álíka oft og 2018 og 2020, eða í 21 prósenti tilfella, einkum meðal kvenna.

„Það sem er jákvætt við þróunina er að mun færri nefna að myndefni af þeim hafi verið dreift án leyfis en áður, eða 11 prósent brotanna í stað 16 og 17 prósenta 2018 og 2020. Einnig nefna færri að þeir hafi orðið fyrir misnotkun á greiðslukortum,“ segir Helgi.