„Okkur finnst það mjög jákvætt að Hæstiréttur skuli vilja taka þetta til endurskoðunar,“ segir hæstaréttarlögmaðurinn Gunnar Ingi Jóhannsson í samtali við Fréttablaðið. Hann hefur fengið leyfi til áfrýjunar í máli Guðmundar Spartakusar Ómarssonar gegn blaðamanninum Atla Má Gylfasyni

Atli Már var í Landsrétti dæmdur til að greiða Guðmundi Spartakusi 1,2 milljónir króna í miskabætur fyrir ummæli sem birtust í umfjöllun Atla í Stundinni. Alls 23 af 30 ummælum sem Guðmundi þóttu meiðandi voru í Landsrétti dæmd dauð og ómerk.

Gunnar Ingi segir jákvætt að Hæstiréttur líti svo á að þau álitaefni sem varði heimildir fjölmiðla til að fjalla um rannsóknir á sakamálum - og vísa til nafnlausra heimildamanna – séu endurskoðunarverð.

Hann bindur vonir við að með þessu móti verði hægt að komast hjá því að láta á málið reyna utan landsteinanna, en mál sem tengjast tjáningarfrelsi blaðamanna hafa í nokkur skipti farið alla leið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. „Þetta minnkar líkurnar á að þetta þurfi að fara eitthvað lengra. Við verðum sáttari við dóm í máli sem hefur farið fyrir þrjú dómsstig. Sú staðreynd lágmarkar að minnsta kosti líkurnar á að menn fari út fyrir landsteinanna.“

Hann segir að næsta mál á dagskrá sé að skila dómnum greinargerð og gögnum. Hann býst við því að málið komi til kasta Hæstaréttar næsta vetur.