Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir stærsta vandamálið í faraldrinum enn Delta, ekki Omíkron-afbrigði veirunnar. Hann segir að við mjökumst hægt niður en alls greindust 126 smit innan­lands í gær. Alls hafa þrír greinst á landinu með nýtt af­brigði kórónu­veirunnar, Ó­míkrón, en fjórir fleiri liggja undir grun.

„Við megum ekki tapa okkur alveg í um­ræðunni um Omíkron. Vanda­málið okkar er Delta og við þurfum að halda á­fram og fólk þarf að mæta í örvunar­bólu­setningu. Það er sannar­lega búið að sýna fram á að örvunar­skammturinn er miklu betri en annar skammturinn af bólu­efni. Við vitum ekki hversu lengi verndin endist en það er það besta sem við höfum upp á að bjóða núna,“ segir Þór­ólfur og að allir, sem hafi fengið tvo skammta fyrir minnst fimm mánuðum, eigi að drífa sig í örvunar­skammt.

Í Bret­landi er miðað við þrjá mánuði frá seinni skammti en Þór­ólfur telur að það sé of snemmt.

„Sumir vilja miða við sex mánuði en ég held að fimm séu fínt og ég held við eigum að halda okkur við það. Það borgar sig ekki að fara of snemmt í sprautuna og fá þá ekki þessa al­menni­legu örvun sem við viljum fá og þurfa þá að fara í fjórðu sprautuna,“ segir Þór­ólfur.

Hann segir að hann vonist til þess að með því, og al­mennum sótt­vörnum, sé hægt að ná kúrfunni niður.
Spurður hvort að það séu ein­hverja sér­stakar ráð­stafanir varðandi þau sem hafa smitast af Omíkron segir Þór­ólfur að það sé sama og vegna Delta. Eins vill hann lítið sjá sig um hættunni á því að fá endur­tekið smit en rann­sóknir frá Suður-Afríku benda til þess að hættan sé meiri á því að smitast aftur og að smitast af Co­vid-19 með O­míkron.

„Þetta á eftir að koma í ljós. Það er svo margt sem á eftir að koma í ljós með þetta af­brigði eins og hvort að fyrri sýking verndi eða hvort bólu­efnin verndi og hversu vel þau geri það og hvort af­brigðið sé verra. Við eigum eftir að fá niður­stöður um þetta en við vitum þetta ekki eins og stendur,“ segir Þór­ólfur.

Spenntur að vinna með nýjum ráðherra

Þór­ólfur býst við því að af­henda nýjum heil­brigðis­ráð­herra, Willum Þór Þórs­syni, nýtt minnis­blað um innan­land­s­tak­markanir um helgina. Þær tak­markanir sem eru í gildi renna út þann 8. desember, næsta mið­viku­dag. Hann vill, að vanda, ekkert gefa upp um inni­hald minnis­blaðsins fyrr en ríkis­stjórnin hefur tekið það fyrir.

Ertu spenntur fyrir sam­starfi við nýjan ráð­herra?

„Já, það er alltaf gaman að vinna með ráð­herrum.“

Fólk er að spá í jóla­kúlunni og skipu­lagningu matar­boðanna, hvort jóla­kúlan eigi að vera lítil.

„Fólk þarf mig nú ekki endi­lega til að segja þeim hvernig þetta á að vera. Það á að vita út á hvað þetta gengur,“ segir Þór­ólfur og hlær létt.

Hægt að draga ýmsan lærdóm af veirunni

Í gær voru birt í sam­ráðs­gátt stjórn­valda á­form um nýtt frum­varp til sótt­varna­laga en þar eru lagðar fram ýmsar breytingar eins og að sótt­varna­læknir verði skipaður af ráð­herra í stað þess að hann sé ráðinn af land­lækni og að fjöl­skipuð far­sótta­nefnd taki að hluta við til­lögu­gerð um opin­berar sótt­varna­ráð­stafanir sem eru á hendi sótt­varna­læknis í dag.

Spurður um þetta segir Þór­ólfur að hann eigi enn eftir að skoða til­lögurnar en að það sé já­kvætt að stjórn­skipunar­leg staða sótt­varna­læknis verði út­skýrð betur.

„Ég held að menn verði að draga lær­dóm af þessum far­aldri um að­gerðir og fram­kvæmd og annað. Þannig það er gott mál að skoða það.“

Þegar allir eru búnir að fara í örvunar­skammt getum við þá farið að lifa með veirunni? Eða hve­nær förum við að lifa með veirunni?

„Við erum að lifa með veirunni og höfum gert það frá því að hún kom. Það að lifa með veirunni þýðir ekki endi­lega að við hættum öllu og gerum ekki neitt. Við erum að lifa með veirunni og lág­marka þann skaða sem hún er að valda. Það er að lifa með veirunni en svo þurfum við að sjá hvað verður þegar við erum búin að bólu­setja sem flesta, hvaða árangri við náum og hvort það verði komin ný af­brigði og hvernig þau haga sér. Það er alls­konar sem þarf að hafa í stans­lausri skoðun og það er líka að lifa með veirunni.“