Hlaupa­hjóli hins sjö ára gamla Adams Elí Ómars­sonar var stolið úr hjóla­geymslu á heimili hans í Ár­bænum í Reykja­vík í gær og það eyði­lagt. Móðir hans, Íris Val­geirs­dóttir, vakti á þessu at­hygli á Face­book í dag og í gær og furðar hún sig á málinu.

Adam hafi enda safnað sjálfur fyrir hjólinu og keypt sér það á af­mælinu sínu í júní síðast­liðnum. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Íris að Adam hafi eytt öllum gær­deginum í að leita að hjólinu, án árangurs. Það kom svo í leitirnar í morgun, fjarri íbúð þeirra í hinum enda götunnar, mikið skemmt.

„Það var lögð gríðar­leg vinna í það að skemma hjólið, eins og sést kannski á myndinni. Það stór­sér á hjólinu, búið að höggva í það, sparka í það og henda því á jörðina. Maður sér að það hefur verið gríðar­leg skemmdar­fýsn í þessum ólýð. Þetta er fá­rán­legt,“ segir Íris.

„Hann var rosa­lega sár þegar hann sá hjólið brotið, því hann valdi það og keypti það sjálfur,“ segir Íris. „Þetta virðist vera ein­hver gest­komandi í blokkinni eða þá að ein­hver hefur dinglað hann inn, sem átti ekki að vera hérna.“

Hún segir ná­granna sinn hafa séð tvo full­orðna ein­stak­linga hand­langa hjólið seint í gær­kvöldi. „Þeir fóru út garð­megin, hjólið rekst í gluggann hjá henni, svo hún kíkir og sér þá tvo full­orðna með hjólið.“

Íris bendir á að það hafi verið fullt af öðrum hjólum í geymslunni. Samt hafi hlaupa­hjólið verið það eina sem var tekið. „Það er ekkert annað horfið, þrátt fyrir að það séu fullt af öðrum hjólum þarna niðri.“

Íris segist þakk­lát fyrir þann mikla stuðning sem fjöl­skyldan hafi fundið fyrir eftir að hún birti myndir af hjólinu á Face­book. Henni hafi meðal annars verið bent á að ef til vill væri hægt að lag­færa hjólið.

„Ég er rosa­lega þakk­lát fyrir bylgjuna af stuðningi sem ég hef fengið og mörg góð ráð. Það voru margir sem buðust til að laga það en þegar ég sá hjólið gat ég ekki í­myndað mér að það væri hægt, ég hafði bara ekki í­myndunar­aflið í það.“

Rétt áður en Frétta­blaðið heyrði í Írisi hafði svo inn­flutnings­aðilinn gert við hjólið, Adam til mikillar gleði.

„Þannig þetta er alla­vega góður endir. Hann er rosa­lega dug­legur á hjólinu og þetta er hans upp­á­halds leik­fang. En megi þessi ó­menni skammast sín.“