Logi Einars­son og Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir spurðu Ás­laugu Örnu Sigur­björns­dóttur, dóms­mála­ráð­herra, að því í ó­undir­búnum fyrir­spurna­tíma á þingi í dag, hvort að ekki væri þörf á því að stjórn­völd tækju upp heild­stæðari stefnu í út­lendinga­málum frekar en að leysa sér­stæð mál. Sagði Logi að ekki mætti eingöngu grípa inn í mál þeirra sem hefðu gott tengslanet.

Umræðan er í kjölfar máls Muhammed Zohair Faisal sjö ára pakistansks drengs og fjölskyldu hans, sem vísa átti úr landi. Breytingar dómsmálaráðherra þess efnis að hámarks meðferðartíma málefna barnafjölskyldna styttist úr átján mánuðum í sextán kom í veg fyrir brottvísun þeirra, en sautján þúsund manns höfðu skrifað nafn sitt á undirskriftarlista til stuðnings fjölskyldunni.

Kald­hæðnis­legt að leysa ein­stök mál

„Ég ætla að leyfa mér að byrja á því að hrósa dós­ma­mála­ráð­herra,“ sagði Þor­gerður Katrín í upp­hafi fyrir­spurnar sinnar. Sagði hún að skrefin sem dóms­mála­ráð­herra hafi tekið í gær þegar há­marks með­ferðar­tími um­sókna barna­fjöl­skyldna um al­þjóð­lega vernd, var styttur úr á­tján mánuðum í sex­tán, hafi verið mikil­væg.

Sagði Þor­gerður að þó skrefin hefðu verið stór væri það þó kald­hæðnis­legt að á­vallt sé verið að leysa ein­stök mál en aldrei lögð fram heildar­sýn á mála­flokkinn. „Hér er enginn að tala um stjórn­lausa út­lendinga­stefnu, það er verið að tala um mann­úð­legri út­lendinga­stefnu.

Ekki nóg að hjálpa fólki með tengsla­net

Logi Einarsson hrósaði Ás­laugu jafn­framt fyrir breytinguna sem kynnt var í gær. Það megi þó ekki velta á því hvort að þjóðin taki málin í eigin hendur hver niður­staða mála þeirra sem sækja um al­þjóð­lega vernd yrði.

„Í­trekað hefur nefni­lega fólkið í landinu þurft að bjarga ein­stak­lingum í erfiðri stöðu með sam­taka­mætti sínum. Það er ekki nóg að stjórn­völd grípi inn gagn­vart fólki sem er með gott tengsla­net eða hreyfir við okkur á ein­hvern hátt.“

Hann sagði kerfið vera ó­sveigjan­legt og ó­rétt­látt og því þyrfti að breyta.

„Ég tek undir með hátt­virtum þing­manni að um þessi mál eigi að gilda jafn­ræði og við verðum að tryggja það. Það er skýr vilji lög­gjafans og stjórn­valda að taka sér­stakt til­lit til hags­muna barna við um­sóknir um al­þjóð­lega vernd,“ sagði Ás­laug í svari sínu við fyrir­spurn Loga.

Ás­laug sagði að óskað hefði verið eftir því að þing­manna­nefnd um mál­efni út­lendinga ræddi heildar­sýn á mála­flokkinn. „Það var síðast gert á föstu­daginn að minni beiðni,“ sagði Ás­laug.

Ráð­herra sé ey­land

Þó að Þor­gerður hafi hrósað Ás­laugu sagðist hún hafa á­hyggjur af því að hún hefði lítið bak­land innan Sjálf­stæðis­flokksins og væri „ey­land.“ Þessa á­lyktun drægi hún þar sem hún þekkti for­sögu dóms­mála­ráð­herra Sjálf­stæðis­flokksins.

„Ég hef aldrei heyrt aðra eins vit­leysu,“ sagði Ás­laug þá.