Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggur fram lagafrumvörp í október um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði. Þetta kemur fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 151. löggjafarþing.

Málin eru þrjú. Í fyrsta lagi er það frumvarp þess efnis að aldur vegna réttar til að breyta opinberri skráningu kyns, og samhliða breyta nafni, miðist við 15 ára aldur í stað 18 ára aldurs. Lagt er til að sérhver einstaklingur sem náð hefur 15 ára aldri hafi rétt til að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá. Að því er varðar börn yngri en 15 ára geti þau með fulltingi forsjáraðila sinna breytt opinberri skráningu kyns síns.

Í öðru lagi er frumvarp um að bæta við ákvæði um ódæmigerð kyneinkenni. Lagt er til að varanlegar breytingar á ódæmigerðum kyneinkennum barna undir 16 ára án samþykkis verði einungis heimilar af heilsufarslegum ástæðum og einungis að undangenginni vandaðri málsmeðferð og ítarlegu mati á nauðsyn breytinganna og afleiðingum þeirra.

Útlitslegar, félagslegar og sálfélagslegar ástæður muni ekki teljast til heilsufarslegra ástæðna.

Í þriðja lagi eru frumvarp um að breyta ýmsum lögum til að samræmast þessum breytingum og samþykktum lögum um kynrænt sjálfræði. Breytingunum er ætlað að tryggja réttindi einstaklinga þar sem hlutlaus skráning kyns er nú heimil. Heimildin gerir það að verkum að í lagaákvæðum sem fela í sér kyngreiningu (karl, kona) verður jafnframt að gera ráð fyrir þeim hópi fólks sem kýs að hafa hlutlausa skráningu kyns.

Alþingi hefur áður tekið fyrir breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði. Það var í kjölfar máls Öldu Vigdísar Skarphéðinsdóttir og ómöguleikans (e. catch 22) sem skapaðist vegna laga á Íslandi sem stönguðust á við lög í Þýskalandi.

Við fjórðu grein laganna bættist ný málsgrein til að laga flækjuna sem hljóðaði svo: „Íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis hafa rétt til að breyta skráningu á kyni og nafni sínu.“

Mál Öldu Vigdísar vakti mikla athygli í fyrra og þótti dæmi um kerfisbundið níð á trans-fólki. Þjóðskrá neitaði að samþykkja breyttri kynskráningu og nafnbreytingu vegna búsetu hennar erlendis.