Háværir orðrómar eru nú um að Meghan Markel, hertogaynja af Sussex, og eiginkona Harry Bretaprins, íhugi þátttöku í bandarískum stjórnmálum. Þau hjónin áttu skömmu fyrir bandarísku forsetakosningarnar í nóvember fund með Gavin Newsom, ríkisstjóra Kaliforníu. Heimildarmaður í nánum tengslum við hjónin segir fundinn þó ekki hafa verið pólitísks eðlis.
Mike Trujillo, sem er háttsettur innan Demókrataflokksins, segir í samtali við The Times Meghan vera að „dýfa tánni í vatnið“ og hugsanlega feta í fótspor annarra þekktra sem ákveðið hafa að taka þátt í stjórnmálum, líkt og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og leikarans Arnold Schwarzenegger, sem var ríkisstjóri Kaliforníu í tvö kjörtímabil.
Þau hjónin búa nú í glæsihýsi vestur af Los Angeles með Archie, eins árs gömlum syni sínum. Þau hættu þátttöku í störfum bresku konungsfjölskyldunnar fyrir tæpu ári sem olli mikilli hneykslun og undrun víða um heim.
Undanfarið hafa þau Meghan og Harry helgað sig góðgerðastörfum og stofnað framleiðslufyrirtækið Archwell Audio og skrifað undir verðmætan samning vð bandarísku streymisveituna Netflix og sænsku tónlistarveituna Spotify. Þau hafa staðið fyrir herferð til að vekja fólk til umhugsunar um geðheilsu og segir Trujillo það geta verkað leið inn í stjórnmál.

Orðrómarnir segja að Meghan hugnist að taka þátt í stjórnmálum í Kaliforníu sem lengi hefur verið vettvangur fyrir nýgræðinga á hinu pólitíska sviði. Hugsanlega muni hún sækjast eftir öldungardeildarþingsætinu sem losnaði í Kaliforníu þegar Kamala Harris tók við embætti varaforseta 20. janúar er Joe Biden varð forseti.