Leik­konan og her­toga­ynjan Meg­han Mark­le lýsir þeim harmi sem fylgir því að missa barn á með­göngu í ein­lægni grein í The New York Times. Þá hvetur hún fólk einnig til að huga hvort að öðru á þessum erfiðu tímum.

„Það var morgun í júlí sem byrjaði sem hver annar dagur,“ skrifar Meg­han um þennan ör­laga­ríka dag. „Eftir að hafa skipt um bleyju á [syni mínum] fann ég ný­standi sting.“ Hún féll í gólfið með son sinn og huggaði hann en fann þó á sér að ekki væri allt með felldu.

„Ég vissi að á meðan ég hélt á fyrsta barninu mínu væri ég að missa annað barnið mitt.“

Grét með eigin­manni sínum

Skömmu seinna var Meg­han færð á spítala þar sem hún og eigin­maður hennar Harry prins grétu yfir missi sínum. „Ég reyndi að í­mynda mér hvernig sárin myndu gróa.“

Hugurinn hafi því næst leitað til augna­bliks frá árinu á undan þegar hún og Harry höfðu ný­lokið opin­berum erinda­gjörðum í Suður-Afríku. „Ég var upp­gefin. Ég var með son minn á brjósti og reyndi að halda and­liti í sviðs­ljósinu.“

Er í lagi með þig?

Blaða­maður spurði Meg­han hvort það væri í lagi með hana og hún svaraði af hrein­skilni. „Takk fyrir að spyrja, það hafa ekki margir spurt hvernig ég hafi það.“ Um­mæli Meg­han rötuðu í heims­fréttirnar og slógu á kunnug­lega strengi meðal mæðra og annarra sem bera harm sinn í hljóði.

„Það var ekki að svara af hrein­skilni sem hjálpaði mest heldur spurningin sjálf,“ út­skýrir Meg­han.

Þar sem hún sat í spítala­rúminu með harm­þrungnum eigin­manni sínum upp­götvaði hún að eina leiðin til að hefja bata­ferli væri að byrja á því að spyrja, „Er í lagi með þig?“ Meg­han hvatti les­endur til að huga að þessu á þessum erfiðu tímum þar sem margir eru að ganga í gegnum erfið­leika.

Harry og Meghan voru harmi slegin eftir missinn.

Umræðan lokuð og umlukin skömm

„Að missa barn þýðir að bera nærri ó­um­beran­lega sorg, sem margir upp­lifa en fáir tala um.“ Líkt og Meg­han og Harry upp­götvuðu á spítalanum. „Ég og eigin­maður minn komumst að því að í her­bergi með um hundrað konu voru tíu til tuttugu að ganga í gegnum fóstur­missi.“

Þrátt fyrir að mjög al­gengt sé að konur missi barn á með­göngu er um­ræðan enn tabú að mati Meg­han. Konur sem lenda í slíkum missi upp­lifi skömm og beri harm sinn í hljóði.

„Ein­hverjar hafa af hug­rekki deilt sínum sögum. Þær hafa opnað áður lokaðar dyr, vitandi að þegar ein manneskja segir sann­leikann gefur það okkur hinum leyfi til að gera slíkt hið sama.“

Það sama eigi við þegar ein­hver spyrji hvernig fólk hafi það og hlusti á svarið. „Þá verður byrðin léttari, fyrir okkur öll. Þegar okkur er boðið að deila þjáningum okkar, þá stígum við saman fyrsta skrefið í átt að bata.“