Leikkonan og hertogaynjan Meghan Markle lýsir þeim harmi sem fylgir því að missa barn á meðgöngu í einlægni grein í The New York Times. Þá hvetur hún fólk einnig til að huga hvort að öðru á þessum erfiðu tímum.
„Það var morgun í júlí sem byrjaði sem hver annar dagur,“ skrifar Meghan um þennan örlagaríka dag. „Eftir að hafa skipt um bleyju á [syni mínum] fann ég nýstandi sting.“ Hún féll í gólfið með son sinn og huggaði hann en fann þó á sér að ekki væri allt með felldu.
„Ég vissi að á meðan ég hélt á fyrsta barninu mínu væri ég að missa annað barnið mitt.“
Grét með eiginmanni sínum
Skömmu seinna var Meghan færð á spítala þar sem hún og eiginmaður hennar Harry prins grétu yfir missi sínum. „Ég reyndi að ímynda mér hvernig sárin myndu gróa.“
Hugurinn hafi því næst leitað til augnabliks frá árinu á undan þegar hún og Harry höfðu nýlokið opinberum erindagjörðum í Suður-Afríku. „Ég var uppgefin. Ég var með son minn á brjósti og reyndi að halda andliti í sviðsljósinu.“
Er í lagi með þig?
Blaðamaður spurði Meghan hvort það væri í lagi með hana og hún svaraði af hreinskilni. „Takk fyrir að spyrja, það hafa ekki margir spurt hvernig ég hafi það.“ Ummæli Meghan rötuðu í heimsfréttirnar og slógu á kunnuglega strengi meðal mæðra og annarra sem bera harm sinn í hljóði.
„Það var ekki að svara af hreinskilni sem hjálpaði mest heldur spurningin sjálf,“ útskýrir Meghan.
Þar sem hún sat í spítalarúminu með harmþrungnum eiginmanni sínum uppgötvaði hún að eina leiðin til að hefja bataferli væri að byrja á því að spyrja, „Er í lagi með þig?“ Meghan hvatti lesendur til að huga að þessu á þessum erfiðu tímum þar sem margir eru að ganga í gegnum erfiðleika.

Umræðan lokuð og umlukin skömm
„Að missa barn þýðir að bera nærri óumberanlega sorg, sem margir upplifa en fáir tala um.“ Líkt og Meghan og Harry uppgötvuðu á spítalanum. „Ég og eiginmaður minn komumst að því að í herbergi með um hundrað konu voru tíu til tuttugu að ganga í gegnum fósturmissi.“
Þrátt fyrir að mjög algengt sé að konur missi barn á meðgöngu er umræðan enn tabú að mati Meghan. Konur sem lenda í slíkum missi upplifi skömm og beri harm sinn í hljóði.
„Einhverjar hafa af hugrekki deilt sínum sögum. Þær hafa opnað áður lokaðar dyr, vitandi að þegar ein manneskja segir sannleikann gefur það okkur hinum leyfi til að gera slíkt hið sama.“
Það sama eigi við þegar einhver spyrji hvernig fólk hafi það og hlusti á svarið. „Þá verður byrðin léttari, fyrir okkur öll. Þegar okkur er boðið að deila þjáningum okkar, þá stígum við saman fyrsta skrefið í átt að bata.“